Tvö í lokin og góður útisigur í höfn
Keflavíkurliðið er enn með fullt hús stiga eftir góðan en tæpan sigur á HK á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Þrátt fyrir ágæt tilþrif á báða bóga leit fyrsta markið ekki dagsins ljós fyrr en eftir 50 mínútna leik. Þá komst Mitja Brulc inn fyrir og kom boltanum framhjá Ómari og í markið. Eftir þungar sóknir jafnaði Keflavík metin á 80. mínútu þegar Jón Gunnar skoraði með góðu skoti úr teignum. Skömmu síðar skoraði Patrik sigurmarkið eftir að skot frá Hólmari hafði fallið fyrir hann í vítateig heimamanna. Góður sigur í fyrsta útileik sumarsins og liðið með 9 stig eftir þrjá leiki. HK-menn hafa enn ekki hlotið stig. Næsti leikur er heimaleikur gegn Skagamönnum sem mæta á Sparisjóðsvöllinn mánudaginn 26. maí kl. 20:00.
Víkurfréttir
Bakvörðurinn öflugi Guðjón Árni Antoníusson var kátur í bragði þegar Víkurfréttir náðu af honum tali eftir 1-2 sigur Keflavíkur á HK í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld. Aðspurður hvort sigur kvöldsins hefði unnist af þolinmæði eða einföldum þjófnaði var Guðjón ekki lengi til svara.
„Þolinmæði er dyggð sagði einhver. Við fengum fullt af færum og menn komu klárir af bekknum svo ég er þvílíkt sáttur við þennan sigur,“ sagði Guðjón sem átti góðan skalla að marki HK í fyrri hálfleik en boltinn fór rétt framhjá markinu. Keflvíkingar gerðu tvö mörk í kvöld með fjögurra mínútna millibili, á 80. og 84. mínútu.
„Gaman af því að vera komnir á toppinn og við förum í alla leiki til þess að vinna og það var virkilega gaman að vinna leikinn eftir að hafa lent undir. Við lentum undir hérna í fyrra og náðum að jafna en töpuðum samt þeim leik svo við kvittuðum fyrir leikinn í fyrra,“ sagði Guðjón en svo virðist sem að Keflvíkingar séu að gera upp gamlar sakir um þessar mundir. Keflavík lá einmitt gegn HK í Kópavogi í fyrra, töpuðu gegn Val á Keflavíkurvelli og steinlágu 4-0 gegn Fylki í Árbæ. Það var sem sagt komið að skuldadögum!
„Mete og Nicolai léku ekki með í kvöld sökum meiðsla og tveir nýjir menn komu inn í vörnina og það er alltaf erfitt en bæði Hallgrímur og Brynjar stóðu sig mjög vel og fundu sig í vörninni. Þá fengum við frábæran stuðning hér á útivelli og að heyra í Trommusveitinni hvetja okkur allan tímann gefur okkur kraft til að klára svona leiki,“ sagði Guðjón Árni sæll og kátur í leikslok.
fótbolti.net
„Ég er fyrst og fremst ánægður með að hafa sigrað,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur í samtali við Fótbolta.net eftir að hans menn höfðu landað þriðja sigrinum í þremur leikjum gegn HK í kvöld.
„Strákarnir sýndu þá þolinmæði sem þeir höfðu sett upp fyrir leikinn sem gekk út á það að vera þolinmóðir gagnvart HK liðinu sem við vissum að myndi selja sig dýrt í þessum leik þar sem að þeir voru stigalausir og höfðu ekki skorað mark.“
„Okkur grunnaði að þeir myndu pressa okkur framarlega og gera okkur lífið leitt en okkur tókst að vinna út úr því þótt að það hafi verið seint.“
Eftir að HK komst yfir þá hrukku leikmann Keflavíkur í gang og skoruðu tvö mörk sem nægði til sigurs.
„Kannski var það málið að við þurftum smá vatnsgusu til að vekja okkur en það gekk samt svolítið erfilega að komast til baka en svo komu menn inn með mikla orku.“
„Hörður kom og spændi þetta upp með mikla orku og mikinn vilja og það hjálpaði okkur mikið, Jón var líka með fína innkomu,“ sagði Kristján sem var þokkalega sáttur með spilamennskuna hjá sínu liði heilt yfir.
gras.is
Hallgrímur Jónasson besti maður Keflavíkur liðsins í 2-1 sigi liðsins á HK í kvöld sagði eftir leikinn að liðið hefði sýnt mikinn karakter með því að lenda 1-0 undir og koma til baka og vinna leikinn 2-1. Hann hrósaði HK liðinu og sagði þá vera með mjög skipulagt og gott lið.
„Já þetta var erfið fæðing og HK-ingar eru með mjög skipulagt lið og þeir stóðu sig vel í dag. Okkar skipun var að fara aftur fyrir þá strax og senda inn fyrir vörnina og þar af leiðandi vorum við ekki að halda boltanum eins og við hefðum viljað. Það er gríðarlegur karakter sigur að lenda undir 1-0 og vinna leikinn 2-1.“
Þú ert settur í miðvörðinn þar sem þeir sem hafa verið að spila þá stöðu eru meiddir. En það var ansi mikið bil á milli varnarinnar og miðjunnar á löngum köflum í þessum leik?
„Ég er að vissu leyti sammála því en þeir hafa fljótan framherja og svo er kantmaðurinn það einnig hjá þeim þannig að við vildum ekki hleypa þeim aftur fyrir og þess vegna vorum við að bíða of neðarlega. Það er kannski hluti af skýringunni og náttúrlega það verða breytingar á liðinu frá síðasta leik. Við erum náttúrlega mjög ánægðir og þetta er bara frábært og líka segir þetta um karakterinn í liðinu að lenda undir og koma til baka og vinna leikinn.“
Næsta verkefni ykkar er?
„Það er ÍA heima og síðast þegar við spiluðum við þá á heimavelli þá var mjög skemmtilegur leikur sex mörk og ég hlakka bara til að fara í hann,“ sagði Hallgrímur Jónasson í samtali við Gras.is
Morgunblaðið
Keflvíkingar halda sigurgöngu sinni áfram og í gær heimsóttu þeir HK í Kópavoginn. Heimamenn komust yfir og leikurinn var í járnum þar til tvöföld skipting Keflvíkinga gafst afskaplega vel því tvö mörk fylgdu í kjölfarið á fjögurra mínútna kafla. Fullt hús hjá Keflvíkingum eftir þrjár fyrstu umferðirnar og greinilegt að menn hafa vanmetið liðið miðað við spádóma forráðamanna félaganna.
Hjá Keflavík vantaði Guðmund Viðar Mete miðvörð og vinstri bakvörðinn Nicolai Jörgensen, en þeir eru báðir meiddir. „Ég veit ekki hvað er langt í að þeir verði leikfærir en þeir hafa lítið getað æft í þessari viku, en nú er vika í næsta leik þannig að við vonum það besta,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, eftir leikinn.
Redo er sprækur frammi og duglegur eins og reyndar allt Keflavíkurliðið. Í gær hefði að ósekju mátt koma meira út úr Simun Samuelsen og Hans Mathiesen. Hallgrímur Jónasson leysti hlutverk miðvarðar ágætlega.
Hólmar Örn Rúnarsson MM, Hallgrímur Jónasson M, Petrik Redo M, Guðmundur Steinarsson M
Fréttablaðið
Keflavík byrjaði síðari hálfleik betur en engu að síður skoraði HK fyrsta markið þegar Mitha Brulc skóflaði boltanum yfir Ómar Jóhannsson markvörð Keflavíkur á 50. mínútu eftir góða skyndisókn. Keflvíkingar virtust missa trúna við markið og HK gerði nokkrar álitlegar tilraunir að því að auka forskotið. HK náði ekki að nýta færin og Keflavík jafnaði metin með marki Jóns Gunnars Eysteinssonar tíu mínútum fyrir leikslok úr fyrsta almennilega færi liðsins síðan í byrjun síðari hálfleiks. Patrik Redo skoraði annað mark fyrir Keflavík fjórum mínútum síðar eftir að knötturinn barst til hans af varnarmanni HK eftir skot Hólmars Arnar Rúnarssonar. Sætur sigur Keflavíkur staðreynd í erfiðum leik.
Ómar 6, Guðjón 6, Hallgrímur 7, Kenneth 6, Brynjar 6, Magnús 6 (Hörður 6), Hólmar Örn 7, Hans 4 (Jón Gunnar 7), Símun 6, Patrik 6, Guðmundur 5 (Þórarinn -).
Maður leiksins: Hólmar Örn.
Landsbankadeildin, 19. maí 2008 - Kópavogsvöllur
HK 1 (Mitja Brulc 50.)
Keflavík 2 (Jón Gunnar Eysteinsson 80., Patrik Redo 83.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Árni Antoníusson, Hallgrímur Jónasson, Kenneth Gustafsson, Brynjar Guðmundsson - Magnús Þorsteinsson (Hörður Sveinsson 63.) Hólmar Örn Rúnarsson, Hans Mathiesen (Jón Gunnar Eysteinsson 63.), Símun Samuelsen - Guðmundur Steinarsson (Þórarinn Kristjánsson 73.), Patrik Redo.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Einar Orri Einarsson, Högni Helgason, Magnús Þórir Matthíasson.
Gult spjald: Símun Samuelsen (42.)
Dómari: Jóhannes Valgeirsson.
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Smári Stefánsson.
Eftirlitsmaður: Björn Guðbjörnsson.
Áhorfendur: 820.
Jóni Gunnari vel fagnað eftir jöfnunarmarkið.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)