Fréttir

Knattspyrna | 25. júlí 2003

Tvö mörk í lokin og sigur gegn Blikum

Keflavík vann Breiðablik í 1. deildinni á Keflavíkurvelli í kvöld.  Eftir fremur jafnan fyrri hálfleik var staðan 1-1 í hálfleik.  Okkar menn sóttu meira í seinni hálfleiknum og tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum undir lok leiksins.


Keflavík - Breiðablik

Víkurfréttir/Hilmar Bragi



Leikurinn fór fram í ágætu veðri í Keflavík í kvöld.   Tvær breytingar voru gerðar á liðinu frá síðasta leik; Scott og Hörður komu inn fyrir Ólaf Ívar og Þórarinn en þeir fóru báðir af velli gegn Stjörnunni í síðasta leik vegna meiðsla.  Scott spilaði framar með Magnúsi og Herði en Hólmar kom meira inn á miðjuna með Jónasi og Stefáni. 

Leikurinn fór fjörlega af stað og var jafn í upphafi.  Bæði liðin sóttu án þess að skapa sér verulega hættuleg færi en nokkrar góðar sóknir sáu þó dagsins ljós.  Hörður Sveinsson kom okkar mönnum yfir á 27. mínútu með laglegu marki (sjá mynd að ofan).  Hörður sneri varnarmenn Blika af sér á markteignum eftir hornspyrnu og sendi boltann laglega í netið.  Skömmu síðar björguðu Blikar skalla Haraldar á línu eftir hornspyrnu.  Ívar Sigurjónsson jafnaði fyrir gestina á 35. mínútu, einnig eftir hornspyrnu.  Eftir þvögu í markteignum mistókst varanarmönnum að koma boltanum frá og Ívari tókst að koma honum yfir línuna.  Undir lok hálfleiksins átti Jónas glæsilegt skot utan teigs sem stefndi efst upp á markhornið en Páll Gísli, markvörrður Blika, varði vel. 

Keflavík - Breiðablik

Víkurfréttir/Hilmar Bragi



Keflavíkurliðið sótti mun meira í seinni hálfleiknum.  Markvörður Blika varði nokkur skot og önnur hittu ekki markið.  Leikmenn Breiðabliks drógu sig til baka og beittu skyndisóknum sem voru nokkrar hættulegar.  Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum komst Magnús einn inn að markinu og virtist varnarmaður toga í hann en ekkert var dæmt.  Rétt á eftir sluppum við með skrekkinn þegar Hörður Bjarnason slapp einn inn fyrir vörnina en Ómar varði frábærlega með úthlaupi.  Keflavíkingar héldu áfram að sækja og tókst loks að skora á 89. mínútu þegar Magnús Þorsteinsson braust glæsilega í gegnum vörn Blikanna, lék inn í miðjan vítateiginn og skoraði með laglegu skoti í bláhornið.  Gestirnir pressuðu síðustu mínúturnar en þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma náði Keflavík skyndisókn, Magnús sendi boltann inn fyrir á Þórarinn en markvörður Blika braut á honum í teignum.  Vítaspyrna dæmd og markvörður Blikanna var rekinn af velli.  Zoran Ljubicic skoraði örugglega úr vítinu framhjá varamarkverðinum og rétt á eftir flautaði Gylfi Orrason dómari til leiksloka.

Eftir leiki kvöldsins er Keflavík með 26 stig í efsta sæti deildarinnar, Þór hefur nú 21 stig og Víkingur 20.  Næsti leikur er einmitt gegn Þór á Akureyri og er n.k. úrslitaleikur um framhaldið í deildinni enda mætast þá tvö efstu liðin.


Keflavíkurvöllur, 25. júlí 2003
Keflavík 3
(Hörður Sveinsson 27., Magnús Þorsteinsson 89., Zoran Ljubicic 97. víti)
Breiðablik 1 (Ívar Sigurjónsson 35.)

Keflavík (4-3-3):
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Zoran Ljubicic, Haraldur Guðmundsson, Kristján Jóhannsson - Jónas Guðni Sævarsson, Hólmar Örn Rúnarsson (Haraldur Axel Einarsson 90.), Stefán Gíslason - Magnús Þorsteinsson, Hörður Sveinsson (Þórarinn Kristjánsson 61.), Scott Ramsay (Ólafur Ívar Jónsson 82.)
Varamenn: Magnús Þormar, Hjörtur Fjeldsted
Gult spjald: Scott Ramsay (78.), Stefán Gíslason (90.)

Dómari:
Gylfi Þór Orrason
Aðstoðardómarar: Örn Bjarnason og Valgeir Valgeirsson
Eftirlitsmaður: Guðmundur Stefán Maríasson


Keflavík - Breiðablik

Víkurfréttir/Hilmar Bragi