Tvö töp á heimavelli
Keflavík tapaði gegn Fram þegar liðin mættust á Nettó-vellinum í 6. umferð Pepsi-deildarinnar. Lokatölur urðu 1-2 eftir að gestirnir höfðu leitt með einu marki í hálfleik. Undir lok fyrri hálfleiks fékk Magnús Þórir Matthíasson rautt spjald og stuttu síðar kom Hólmbert Aron Friðjónsson gestunum yfir. Steven Lennon bætti við öðru marki en Sigurbergur Elísson minnkaði muninn um miðjan seinni hálfleikinn. Fleiri urðu mörkin ekki og tap á heimavelli niðurstaðan.
Eftir leikinn er Keflavík með fjögur stig eftir sex umferðir. Næsti leikur er útileikur gegn Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabæ sunnudaginn 16. júní kl. 20:00.
-
Þetta var 89. leikur Keflavíkur og Fram í efstu deild. Þetta var 28. sigur Framara, Keflavík hefur unnið 34 leiki og jafnteflin eru 27. Markatalan er nú 132-118 fyrir Keflavík.
-
Keflavík hefur náð í fjögur stig í fyrstu sex leikjum sumarsins og hefur unnið einn leik, gert eitt jafntefli en tapað fjórum leikjum. Þetta er versta byrjun liðsins síðan árið 1999 þegar liðið var einnig með fjögur stig eftir sex umferðir. Það ár varð Keflavík í 8. sæti af 10 liðum í efstu deild.
-
Sigurbergur Elísson gerði fyrsta mark sitt í sumar og fimmta mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild. Mörkin fimm hafa komið í 29 leikjum en þrjú þeirra hafa einmitt komið gegn Fram.
-
Magnús Þórir Matthíasson fékk annað rauða spjald Keflavíkur í sumar. Sé síðasta tímabil talið með hefur liðið nú fengið sex rauð spjöld í síðustu þrettán leikjum sínum í efstu deild.
- Hólmbert Aron Friðjónsson gerði fyrra mark Fram í leiknum en afi hans er auðvitað Hólmbert Friðjónsson, fyrrverandi leikmaður og þjálfari Keflavíkur. Þess má geta að Hólmbert skoraði einmitt fyrir Keflavík í fyrsta leik Fram og Keflavíkur í efstu deild. Sá leikur fór fram 21. ágúst 1958 á Melavellinum og lauk með 2-2 jafntefli.
Kvennalið Keflavíkur varð einnig að sætta sig við tap á heimavelli þegar liðið mætti Völsungi á laugardaginn. Gestirnir gerðu eina mark leiksins en það var Harpa Ásgeirsdóttir sem gerði eina mark leiksins í seinni hálfleik.
Okkar stelpur hafa þar með tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni þetta sumarið. Næsti leikur er gegn KR á KR-velli föstudaginn 14. júní kl. 20:00. Leikur Grindavíkur og Keflavíkur sem var frestað á dögunum verður miðvikudaignn 26. júní kl. 19:15 á Grindavíkurvelli.
-
Þetta var fimmti leikur Keflavíkur og Völsungs í næstefstu deild. Þetta var annar sigur Völsungs, Keflavík hefur unnið tvo leiki og einum leik hefur lokið með jafntefli. Markatalan er nú 10-4 fyrir Keflavík.
-
Telma Rún Rúnarsdóttir stóð í marki Keflavíkur í leiknum og lék sinn fyrsta deildarleik. Ljiridona Osmani lék einnig sinn fyrsta deildarleik en hún lék sinn fyrsta leik í bikarnum í sumar.