Fréttir

Knattspyrna | 6. júní 2006

Tvö víti, betri á vellinum, tap... Sorglegt

Það kemur fyrir að fara heim til sín ferlega svekktur eftir tapleiki en leikurinn í gærkvöldi toppaði allt saman.  Að vera að spila við Íslandsmeistarana FH og vera betri aðilinn í leiknum, brenna af tveimur vítaspyrnum og tapa 2-1 er eitthvað sem erfitt er að kyngja.  Keflavík spilaði góðan bolta í gær en það dugði ekki til.  Heppnin var með FH í gær og því fór sem fór.

Keflavík byrjaði mun betur og stjórnaði leiknum nokkuð vel.  En á 20. mínútu skoruðu Keflvíkingar sjálfsmark, heldur slysalegt en boltinn fór af  Jónasi Guðna og yfir Ómar í markinu.  Á 28. mínútu fengu Keflavík vítaspyrnu.  Eftir frábæra rispu Branislav Milisevic upp völlinn og gaf svo á Magnús Sverrir sem skaut að marki.  Daði náði að verja en boltinn barst til Branislav Miliseviv sem var kominn í færi og skaut í hönd eins varnarmanna FH og víti dæmt.  Daði í marki FH varði slaka spyrnu Guðmundar Steinarssonar.

 

Seinni hálfleikur var ekki nema 8. mínútna gamall þegar FH skoraði annað mark sitt og þar var á ferðinni Atli Viðar Björnsson eftir skelfileg varnarmistök Keflvíkinga.  Staðan orðin 2-0 fyrir FH og útlitið ekki gott.  Eftir þetta mark FH-inga voru Keflvíkingar meira og minna á vallarhelmingi FH-inga og sóttu mikið.  Á 70. mínútu átti Simun Samuelsson fyrirgjöf að marki FH og boltinn hrökk af varnarmanni  FH og í netið og staðan orðin 2-1 og allt gat gerst.  Keflavík sótti og sótti og kræktu í margar hornspyrnur og fengu færi.  En þegar þrjár mínutur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu Keflvíkingar vítaspyrnu sem Símun Samúelsen krækti í eftir barning við varnarmann.  Þórarinn Kristjánsson tók vítaspyrnuna en Daði gerði sér lítið og varði spyrnu hans.  Þess má geta að Daði var kominn hressilega fram fyrir línuna þegar spyrnan var tekin, en það má ekki taka af honum að vítaspyrnan var vel varin.  Sorglegur endir á góðum leik.

 

En við Keflvíkingar grátum ekki lengi, jöfnum okkur í dag og förum svo að undirbúa næsta leik sem er á fimmtudaginn 8. júní þegar stigalausir ÍA menn koma í heimsókn til okkar í Keflavíkina.

 

ÁFRAM KEFLAVÍK

 

JÖA