Fréttir

Knattspyrna | 2. apríl 2008

Tyrklandspistill 5 - Í sól og blíðu...

Dagurinn byrjaði snemma fyrir þá sem spiluðu ekki í gær og voru þeir mættir á æfingu kl. 9:00.  Þeir sem spiluðu í gær fengu að sofa aðeins lengur og nutu þess.  Síðan fóru menn að tínast í sólbað á meðan aðrir hvíldu lúin bein upp á herbergi.  Einnig er líkamsræktarsalurinn vel notaður og þar er vel tekið á því.

Kristján heldur uppteknum hætti með lærdóminn hjá strákunum fimm sem voru í skólastofunni í einn og hálfan tíma í morgun.  Skólastjórinn Einar Aðalbjörnsson fékk frí og tók aðstoðarskólastjórinn Jón Örvar við starfinu á meðan en þeir Einar og Dói skruppu til Belek í embættiserindum.  Það er nóg að gera hjá Fal Daða í nuddinu og hann er nánast á fullu allan daginn.  Það er mikið um nudd og alls konar meðferðir hjá honum og leikmenn eru ánægðir með sjúkraþjálfarann sinn.

Seinni æfingin byrjaði kl. 16:00 og sú var með hressilegra móti.  Mjög góð æfing og endaði hún með nokkrum leikjum á milli eldri og yngri.  Spilað var stutt á milli marka og svakaleg tilþrif sáust.  Frábærar markvörslur hjá Símon markmanni sem spilaði með þeim eldri sem sigruðu að lokum með átta mörkum.  Þetta fór svolítið í taugarnar á sumum þeim yngri og sérstaklega í taugarnar á einum leikmanni sem kært hefur úrslit leikjanna.  Aganefnd tók málið strax fyrir og úrslitin standa óbreytt.  En allir urðu sáttir að lokum..., held ég... en góðri æfingu lauk með skokki og góðum teygjum.

Nú eru menn að gera sig klára í kvöldmatinn og svo bíður meistaradeildin í sjónvarpinu.  Falur Daða spáir sínum mönnum í Liverpool 0-2 sigri en ég spái Arsenal sigri 3-1.  Þetta verður örugglega góður leikur.

Þar til næst….

Kveðja
Jón Örvar