Tyrklandspistill 9 - Öruggur sigur gegn Kjelsás
Menn voru eitursprækir er þeir stigu á fætur í morgun og héldu á æfingu. Æfingin gekk að mestu út á að æfa föst leikatriði eins og innköst, horn og aukaspyrnur. Það var góð stemmning í leikmannahópnum og voru þeir mjög einbeittir í öllum aðgerðum sínum, enda leikdagur! Sigurbergur var því miður orðinn veikur og gat ekki tekið þátt í leiknum frekar en Ivo, Brynjar eða Patrik.
Leikurinn sjálfur hófst með stórsókn Kelfavíkur sem endaði með því að dæmd var aukaspyrna rétt fyrir utan vítateig Norsaranna. Kenneth átti úr henni hörkuskot sem markvörður Kjelsás rétt náði að slá í horn. Annars tók það okkur töluverðan tíma að komast á rétt ról og finna rétta taktinn í leiknum. Kjelsás beitti mikið löngum sendingum í leik sínum og vörðust varnarmenn okkar þessum árásum vel, með Mete fremstan í flokki. Það var síðan á 28. mínútu að við komumst yfir eftir góða sókn upp hægri kantinn. Það var Þórarinn sem setti boltann í markið eftir skot frá Hallgrími. Staðan 1-0 í hálfleik.
Þrjár breytingar voru gerðar á liðinu í leikhléi ásamt áréttingar um hvernig spila ætti seinni hálfleikinn. Í kjölfar þess að athuga hvort dómararnir hefðu ekki örugglega fengið að vita af skiptingunum í hléinu fékk Jón Örvar áminningu fyrir að grennslast um málið. Hvað dómurunum gekk til þar er okkur hulin ráðgáta en okkur grunar að um öfund hafi verið að ræða. Jón Örvar fór nefnilega í tyrkneskt nudd fyrr um morguninn án þess að dómararnir fengju rönd við reist og fór Magdalena nuddkona fimum höndum um líkama Jóns frá toppi til táar. Keflavík tók síðan algjörlega völdin strax í upphafi seinni hálfleiks og komust Kjelsás menn ekki í sókn fyrr en á 59. mínútu og því miður þá dugði sú sókn þeim að jafna leikinn eftir grófan misskilning í vörn okkar. Þetta klaufamark virtist slá okkar menn nokkuð út af laginu og tók langan tíma að jafna sig á því. Það var ekki fyrr en Nicolai tók af skarið og hljóp upp nánast allan völlinn með boltann á 69. mínútu og þrumaði honum í nærsamskeytin og við náðum forystunni aftur að liðið náði áttum að nýju. En þvílíkt mark, ótrúlegur kraftur í skotinu hjá Nicolai og Norðmennirnir hreinlega áttuðu sig ekki á því að knötturinn lá í markinu hjá þeim, slíkur var krafturinn. Eftir þennan stormsveip sem Nico var áttu Kjelsás enga möguleika og Hallgrímur bætti við þriðja markinu eftir vel útfærða hornspyrnu á 86. mínútu. Þessi hornspyrna hafði einmitt verið æfð um morguninn með þessum líka árangri. Úrslitin því ánægjulegur 3-1 sigur gegn Norska 2. deildarliðinu Kjelsás.
Allir leikmenn komu við sögu í þessum leik nema Símon markmaður. Annað sem er ánægjulegt að enginn slasaðist, hvorki í þessum leik, né gegn Rússunum. Framundan er slökun hjá leikmönnum. Æfingar á morgun og mánudag og svo heim um kvöldið.
Við viljum óska stelpunum í körfunni til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, glæsilegt hjá þeim. Ætla að geta þess að Kristján þjálfari komst með puttana í þennan pistil og á nokkrar magnaðar setningar í honum.
Keflavík: Ómar - Guðjón, Mete, Kenneth, Nico - Magnús Þ., Jón Gunnar, Haddi, Símun - Þórarinn og Gummi St.
Einar Orri, Hafsteinn, Bessi, Högni, Maggi Matt og Bjössi komu inn á.
Þar til næst...
Kveðja,
Jón Örvar
Byrjunarlið Keflavíkur.
Kenneth með aukaspyrnuna.
Barátta við mark Keflavíkur.
Tóti skoraði fyrsta markið.
Valsmenn fygjast með enda er fyrsti leikurinn í Íslandsmótinu gegn þeim.
Nico með skalla í slá.
Símun í baráttunni.
Haddi að skora þriðja markið.
Markinu fagnað.
Feðgarnir Einar og Einar.
Raiko og Ómar.
Kristján sá fyndni og Jón Örvar.
(Líklega hefur Jón þá ekki tekið þessa mynd)