Um bikarúrslitaleikinn
Keflavík er komið í úrslit VISA-bikarkeppninnar og leikur á móti KA í úrslitum n.k. laugardag kl. 14:00 á Laugardalsvelli. Dregið hefur verið um leikinn og heitir leikurinn KA-KEFLAVÍK. Þá var dregið um hvar áhorfendur og stuðningsmenn liðanna skipa sér í fylkingar í stúkunni í Laugardal og drógumst við Keflvíkingar á "okkar" stað, norðanmeginn.
Heiðursgestur á leiknum verður Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.
Leikurinn verður sýndur beint á RUV.
Upphitun stuðningsmanna KEFLAVÍKUR verður á BRODWAY og opnar húsið kl. 11:00. Þar verður boðið upp á lifandi tónlist. Hvatningarlög og hróp verða æfð. Boðið verður upp á andlitsmálun, sölu á gömlum búningum, nýjum treflum, húfum og ýmsum Keflavíkurvörum, allt á mjög sanngjörnu verði. Stuðningsmenn Keflavíkur eru hvattir til að fjölmenna á upphitunina, ungir sem aldnir. Þar verður ekkert kynslóðabil því þar mæta allir jafnir sem stuðningsmenn Keflavíkur.
Forsala aðgöngumiða og ýmsar nánari upplýsingar um verð, rútuferðir, uppákomur o.fl. verða tilkynnt hér á síðunni um leið og ákvarðanir liggja fyrir.