Fréttir

Knattspyrna | 2. júní 2009

Umdeild atvik og jafnt gegn Stjörnunni

Það var boðið upp á hörkuleik í gærkvöldi á Sparisjóðsvellinumí Keflavík þegar efsta lið Pepsi-deildarinnar Stjarnan kom í heimsókn.  Leiknum lauk með jafntefli 1-1 í góðum leik sem 1.980 áhorfendur sáu í blíðskapar veðri.  Keflavík lék betur í fyrri hálfleiknum en Stjarnan í þeim seinni.

Keflavík gerði tvær breytingar á liði sínu frá jafnteflisleiknum gegn Breiðablik í síðustu umferð.  Jón Gunnar kom inn á miðjuna í stað Einars Orra og Magnús Þórir var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu og kom inn fyrir Jóhann Birnir sem var meiddur.  Leikurinn var góð skemmtun og bæði lið fá hrós fyrir að reyna að spila góðan fótbolta.  Okkar menn voru sterkari í fyrri hálfleik og áttu þrjú dauðafæri sem öll misfórust.  Á 25. mínútu skoraði Hörður eftir fallega stungusendingu frá Magnúsi Þóri.  Stjörnumenn komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og sóttu stíft að marki Keflavíkur.  En Lasse hinn danski var í stuði og átti nokkrar mjög góðar markvörslur. Jöfnunarmark Stjörnunnar kom svo í uppbótartíma þegar Halldór Orri skoraði af stuttu færi.

Það er óhætt að segja að Keflvíkingar, utan vallar og innan, hafi ekki verið ánægðir með gang mála undir lok leiksins.  Guðjón Árni fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 85. mínútu.  Guðjón hafði þá sótt að markmanni Stjörnunnar eftir hörkusókn okkar manna og í kjölfarið hrinti leikmaður gestanna honum í völlinn.  Dómari leiksins ákvað hins vegar að spjalda þá báða og kom spjaldið á Guðjón flestum í opna skjöldu.  Þegar Stjörnumönnum tókst að jafna á síðustu andartökum leiksins var leikmaður þeirra að búa sig undir langt innkast en henti boltanum síðan beint niður í völlinn á samherja sem gaf inn í teig.  Flestum sýndist að þetta frumlega innkast væri ekki samkvæmt knattspyrnulögunum en dómararnir gerðu enga athugasemd.  Það verður þó ekki tekið af Stjörnumönnum að þeir léku mjög vel í leiknum, sérstaklega í seinni hálfleiknum, og Bjarni Jóhannsson er greinilega að búa til gott lið í Garðabænum.

Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Nicolai Jörgensen 68.), Jón Gunnar Eysteinsson, Símun Samuelsen, Haukur Ingi Guðnason (Einar Orri Einarsson 85.), Hörður Sveinsson, Magnús Þórir Matthíasson (Bojan Stefán Ljubicic 62.)
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon, Þorsteinn Atli Georgsson, Stefán Örn Arnarson.


Kristján þjálfari var í viðtali á þeirri frábæru síðu fótbolti.net og birtum við það hér með leyfi þeirra.

Kristján Guðmundsson var að vonum svekktur eftir að Keflavík tapaði sínum fyrstu stigum á heimavelli í ár þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Stjörnuna. Gestirnir jöfnuðu metin í uppbótartíma og viðurkennir Kristján að það hafi verið svekkjandi.
 „Þetta er auðvitað svolítið svekkjandi svona fyrst en svo jafnar maður sig þegar maður lítur aðeins yfir leikinn í heild sinni. Við vorum mjög lélegir í seinni hálfleik eftir að hafa verið mun betri í fyrri hálfleik og fengið mjög góð færi án þess að hafa tekist að bæta við mörkum. Okkur var grimmilega refsað fyrir það,“ sagði Kristján við Fótbolti.net. „Ég get ekki verið ósáttur við spilamennsku minna manna í heildina. Ég verð auðvitað að gefa þeim eitthvað kredit fyrir fyrri hálfleikinn en seinni hálfleikurinn er arfaslakur. Auðvitað vildum við vinna en við vorum meðvitaðir um það að við værum að spila gegn liði sem er í efsta sæti. Það er gríðarlega mikil stemning í gangi þar og þeir eru að gera fína hluti þannig að við vissum að þetta yrði alltaf erfitt.“

Kristján segir að það hafi verið einbeitingarleysi í lokin sem kostaði Keflvíkinga stigin þrjú en hann vill samt sem áður meina að mark Stjörnunnar hafi átt sér ólöglegan aðdraganda.
„Það er ljóst að það var eitthvað einbeitingarleysi hjá okkur í restina. Það var mikill æsingur í gangi við að reyna að halda hreinu undir lokin og þeir eru tveir ódekkaðir á fjærstönginni þegar boltinn kemur inn úr kolólöglegu innkasti, og við vorum ekkert hressir með það. Hann kastaði boltanum beint niður í grasið sem er ólöglegt,“ sagði Kristján ósáttur við Fótbolti.net að lokum.


Kristinn dómari tekur til sinna ráða...
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)