Umfjöllun um leikinn fyrr í kvöld.
Umfjöllun um leikinn tekin af www.landsbankadeildin.is, birtist einnig á www.fotbolti.net. Birt með leyfi greinarhöfundar.
Umfj.: Keflavík með verðskuldaðan sigur á KR
Keflavík 3-0 KR
1-0 Magnús Sverrir Þorsteinnsson (3)
2-0 Daniel Servino (46)
3-0 Símun Eiler Samuelsson (81)
Keflavík sigraði KR mjög verðskuldað 3-0 í kvöld. Vörn Keflvíkinga var sterk og voru Vesturbæingarnir í miklum erfiðleikum að finna leið í gegnum hana.
Buddy Farah, Ingvi Rafn Guðmundsson, Ólafur Jón Jónsson og Þórarinn Kristjánsson voru ekki með vegna meiðsla hjá heimamönnum en það virtist hafa lítil áhrif á þá í kvöld. Hjá gestunum í KR var Águst Gylfason ekki með vegna meiðsla.
Keflavík skoruðu fyrsta mark leiksins eftir aðeins þriggja mínútna leik. Símun Eiler Samuelsson átti góðan sprett upp vinstri kantinn og gaf út á Magnús Sverrir Þorsteinsson sem skoraði með hnitmiðuðuð skoti framhjá Kristjáni Finnbogasyni í markinu.
KR-ingar fengu gott tækifæri aðeins fjórum mínútum seinna til að jafna metin þegar Sigumundur Kristjánsson fékk sendingu frá Bjarnólfi Lárussyni og vippaði snyrtilega yfir Ómar Jóhannsson, markvörð Keflvíkinga, en Guðmundur Viðar Mete náði að verja á línu.
Sigmundur fékk svo annað fínt færi mjög fljótlega eftir sendingu frá Guðmundu Reyni Gunnarssyni en viðstöðulaust skot hans fór vel framhjá markinu. Þessi tvö færi Sigmunds reyndust vera einu færi KR-inga í þessum leik.
Markaskorarinn Magnús Sverrir var svo næstur á feðinni eftir frábæra sókn Keflvíkinga. Magnús og Danny Servino áttu mjög gott þríhyrningsspil sem endaði með því að Magnús skaut yfir Kristján í markinu en því miður fyrir hann vel yfir þverslánna líka.
Magnús og Danny spiluðu síðan aftur vel saman og nú endaði það með skoti frá Servino en Kristján varði það nokkuð örugglega. Servino var svo aftur í viðbótartíma en fast skot hans fór framhjá markinu.
Það var svo innan við mínúta liðin af seinni hálfleik þegar Servino bætti við öðru marki heimamanna. Eftir klafs í vörn gestanna fór boltinn af Baldri Sigurðssyni til Servino sem skaut góðu skoti í bláhornið, óverjandi fyrir Kristján.
Það var svo Símun Samuelsson sem gulltryggði sigur Keflvíkinga á 81. mínútu eftir fyrirgjöf Hólmars Arnar Rúnarssonar. Símun fékk svo gott tækifæri til að bæta við fjórða markinu þegar hann slapp inn fyrir vörn KR en Kristján varði mjög vel frá Færeyingnum snjalla.
Lokatölur því 3-0 fyrir Keflavík sem voru að spila glimrandi fótbolta á köflum og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur ef þeir spila svona í allt sumar. Teitur Þórðarsson og hans menn í KR þurfa hinsvegar að hífa upp um sig buxurnar ef þeir ætla sér að vera í toppbarátunni.
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Branislav Milicevic, Guðmundur Viðar Mete, Baldur Sigurðsson, Símun Samuelsson (Davið Örn Hallgrímsson 85), Daniel Servino, Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Guðmundur Steinarsson (Ólafur Þór Berry 86), Magnús Sverrir Þorsteinsson (Kenneth Ingimar Gustafsson 79).
Ónotaðir varamenn: Magnús Þormar, Einar Orri Einarsson, Þorsteinn Atli Georgsson.
KR (4-3-3): Kristján Finnbogi Finnbogason, Kristinn Jóhannes Magnússon, Gunnar Einarsson, Tryggvi Sveinn Bjarnason (Mario Cizmek 46), Gunnlaugur Jónsson, Dalibor Pauletic, Bjarnólfur Lárusson, Garðar Jóhannsson (Rógvi Jacobsen 72), Guðmundur Reynir Gunnarsson (Gunnar Kristjánsson 62), Sigmundur Kristjánsson, Grétar Ólafur Hjartarson.
Ónotaðir varamenn: Atli Jónasson, Björgólfur Hideaki Takefusa, Sölvi Davíðsson.
Dómari: Egill Már Markússon – Stóð sig nokkuð vel
Veður: Smá gola en að sjálfsögðu sól eins og venjulega í Keflavík
Maður leiksins: Símun Eiler Samuelsson – Líflegur á kantinum, skoraði og lagði upp mark
Þessir skoruðu mörkin í kvöld. - mynd Jón Örvar.