Fréttir

Knattspyrna | 20. ágúst 2004

Úrslitakeppnin að byrja hjá kvennaliðinu

Keflavík og Þróttur R. leika í undanúrslitum 1. deildar kvenna og verður fyrri leikur liðanna laugardaginn 21. ágúst kl. 14:00; leikurinn fer fram á Valbjarnarvelli í Laugardalnum.  Seinni leikurinn verður síðan á Keflavíkurvelli næsta þriðjudag kl. 18:00.  Í hinni viðureign undanúrslitanna leika Sindri og ÍA og þau lið sem komast áfram leika síðan úrslitaleik um sigurinn í deildinni laugardaginn 28. ágúst.  Við hvetjum stuðningsmenn Keflavíkur til að styðja stelpurnar í þeirri baráttu sem framundan er.

Liðið lauk deildarkeppninni með glæsibrag.  Keflavíkurstúlkur náðu að taka sig saman í andilitinu eftir óvænt jafntefli við HK/Víking í síðasta leik og sigra Ægi frá Þorlákshöfn með 22 mörkum gegn engu.  Já, ótrúlegar tölur í knattspyrnuleik, hvað þá í meistarflokki.  Eins og tölurnar gefa
tilkynna þá voru yfirburðir Keflavíkur miklir og komu mörkin í öllum regnbogans litum.  Ásdís Þorgilsdóttir var að vonum ánægð með þennan stórsigur og sagði að þessi leikur hefði þróast eins og flestir leikir Keflavíkur í sumar þar um einstefnu hefði verið að ræða og að leikmenn hefðu stefnt að því að slá fyrra markamet m.fl. sem var 19-0.  Markaskorun dreifðist á 8 leikmenn og var mikill metnaður í Keflavíkurliðinu að standa sig.  Framundan eru undanúrslit og verður leikið við lið Þróttar frá Reykjavík, fyrri leikur verður spilaður á n.k. laugardag 21.ágúst á heimavelli Þróttar og seinni leikurinn þriðjudag 24.ágúst á Keflavíkurvelli. "Það er mikið atriði að leikmenn Keflavíkur komi með rétt hugarfar og hausinn í lagi, því getan er til staðar og allir leikmenn vel stemmdir" sagði Ádís. Nú þarf stuðning Keflvíkinga til að tryggja sjálfkrafa þátttöku í efstu deild að ári, en til þess þarf að vinna samanlagt leikina við Þrótt og úrslitaleik sem spilaður verður 28.ágúst annaðhvort við ÍA eða Sindra.

Mörk Keflavíkur skoruðu Helena Þórólfsdóttir 4, Lilja Íris Gunnarsdóttir, Guðný Þórðardóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir, Inga Lára Jónsdóttir og Hrefna Magnea Guðmundsdóttir 3 hver, Björg Ásta Þórðardóttir 2 og Ásdís Þorgilsdóttir 1.