Úrslitakeppnin framundan hjá stelpunum
Kvennalið Keflavíkur er komið í úrslitakeppni 1. deildar kvenna og mætir Selfossi í undanúrslitum. Fyrri leikur liðanna verður á Nettó-vellinum á laugardag kl. 14:00 en seinni leikurinn á Selfossi á þriðjudaginn kl. 17:30. Liðið sem sigrar samanlagt í leikjunum tveimur tryggir sér sæti í úrvalsdeildinni á næsta ári og leikur jafnframt til úrslita í 1. deildinni við FH eða Hauka.
Keflavík tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með öruggum 7-1 sigri á Sindra í síðasta leiknum í riðlinum. Nína Ósk Kristinsdóttir gerði tvö markanna og Indira Ilic, Agnes Helgadóttir, Guðný Þórðardóttir, Andrea Ósk Frímannsdóttir og Karen Sævarsdóttir gerðu eitt mark hver. Þess má geta að Nína Ósk gerði tíu mörk í fimm leikjum í riðlakeppninni og hún er nú komin með 102 deildarmörk í leikjum með Keflavík og tengdum liðum. Nína Ósk skoraði á sínum tíma 32 mörk fyrir sameiginlegt lið Keflavíkur, Reynis og Víðis og síðan hefur hún skorað 70 deildarmörk fyrir Keflavík. Nína hefur skorað 33 mörk fyrir Keflavík í efstu deild og hún á einnig 38 mörk fyrir Val í efstu deild.