Fréttir

Knattspyrna | 18. ágúst 2011

Úrslitastundin - Keflavík - Sindri á laugardag kl. 14:00

Það er komið að úrslitastundu hjá kvennaliði Keflavíkur sem fær Sindra í heimsókn í síðustu umferð 1. deildar kvenna.  Liðin mætast á Nettó-vellinum á laugardaginn kl. 14:00.  Staðan er einföld hjá stelpunum; ef þær sigra Sindra tryggír liðið sér 2. sætið í riðlinum og sæti í úrslitakeppni 1. deildarinnar.  Jafntefli eða tap þýðir að HK/Víkingur nær þessu eftirsótta 2. sæti. 

FH hefur þegar tryggt sér sigur í riðlinum og mætir nágrönnum sínum í Haukum í undanúrslitum deildarinnar.  Selfoss sigraði í B-riðli og mætir því Keflavík eða HK/Víking í hinni undanúrslitaviðureigninni.  Liðin sem sigra í þessum einvígjum tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni að ári og leika til úrslita um sigurinn í 1. deildinni þetta árið.

Eins og áður sagði hefst leikur Keflavíkur og Sindra á Nettó-vellinum kl. 14:00 á laugardaginn.  Það er full ástæða til að hvetja stuðningsmenn Keflavíkur að mæta á leikinn og styðja stelpurnar okkar sem hafa staðið sig vonum framar í sumar.


Frá leik Keflavíkur og FH á dögunum.
(Mynd: Jón Örvar)