Fréttir

Knattspyrna | 12. mars 2011

Útileikir um helgina

Karla- og kvennaliðin okkar leika bæði á útivelli á sunnudag.  Strákarnir skreppa á Akureyri og leika þar við Þór í Lengjubikarnum.  Leikurinn er í Boganum kl. 15:00.  Þess má geta að liðin hafa þrisvar áður leikið í Lengjubikarnum, árið 1996 vann Keflavík 6-1 og aftur árið 2003, þá 4-2.  Liðin gerðu svo markalaust jafntefli árið 2006 en þessir leikir voru allir í riðlakeppni mótsins.  Þórsarar eru með þrjú stig eftir þrjá leiki í riðlinum en okkar menn unnu Breiðablik 2-0 og gerðu svo 1-1 jafntefli við Gróttu.  Dómari leiksins verður Bjarni Hrannar Héðinsson og aðstoðardómarar hans þeir Árni Kristjánsson og Kristján Ari Sigurðsson.  Næsti leikur okkar er heimaleikur gegn KR í Reykjaneshöllinni laugardaginn 19. mars kl. 16:00.


Kvennaliðið okkar leikur gegn HK/Víkingi á sunnudaginn og fer leikurinn fram í Fagralundi kl. 14:00.  Þessi leikur er liður í Faxaflóamótinu og er síðasti leikurinn hjá stelpunum í riðlinum.  Þær hafa tapað þeim þremur leikjum sem þær hafa þegar leikið.  Liðið hefur svo leik í Lengjubikarnum um næstu helgi og leikur þá gegn Álftanesi í Reykjaneshöllinni sunnudaginn 20. mars kl. 14:00.