Fréttir

Knattspyrna | 28. júní 2007

Útileikur gegn Þrótti í bikarnum

Keflavík leikur á útivelli gegn Þrótti Reykjavík í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins.  Leikur liðanna fer fram miðvikudaginn 11. júlí á Valbjarnarvelli.  Þess má geta að þetta verður 15. útileikur okkar í röð í bikarkeppninni.  Fjórir þessara leikja voru á Laugardalsvellinum en Keflavík var alltaf dregið sem útilið.  Síðast lék Keflavík á heimavelli í bikarkeppninni þann 3. júlí 2002 þegar U23 ára lið ÍA kom í heimsókn á Keflavíkurvöll.  

Keflavík og Þróttur hafa fjórum sinnum áður mæst í bikarkeppninni og hafa þeir allir verið miklir markaleikir.  Árið 1961 vann Keflavík fyrsta bikarleik liðanna 3-2, Þróttur vann 4-3 árið 1978 og árið 1989 vann Keflavík 3-2.  Liðin mættust síðast í bikarnum árið 1991 þegar þau mættust í 3. umferð keppninnar.  Keflavík vann þá 4-3 á Þróttarvelli þar sem Kjartan Einarsson skoraði tvö mörk og Gestur Gylfason og Jakob Jónharðsson eitt hvor.  Þá má ekki gleyma því að núverandi þjálfari Þróttar er Keflvíkingurinn Gunnar Oddsson en hann var einmitt leikmaður og þjálfari bikarmeistara Keflavíkur árið 1997. 

Drátturinn í 16 liða úrslitunum:
Fjarðabyggð - Fjölnir
ÍBV - FH
Haukar - Fram
KR - Valur
Þróttur R. - Keflavík
Þór Ak. - Fylkir
ÍA - Víkingur
Breiðablik - HK