Fréttir

Knattspyrna | 6. október 2021

Útskrift 2.flokks

Árgangur 2002 útskrifuð úr yngri flokka starfi knattspyrnudeildar.

Markmiðin með knattspyrnustarfinu eru í grunninn tvenns konar. Annars vegar knattspyrnuleg markmið sem miðast að því að búa til framúrskarandi leikmenn fyrir meistaraflokka félagsins og hins vegar þau félagslegu, sem snúast um að skapa börnum okkar skemmtilega æsku og skapa vandaða einstaklinga sem eiga sem mesta möguleika á að láta gott af sér leiða á hinum ýmsu sviðum lífsins, samfélagi okkar til góða.

Síðastliðinn þriðjudag voru tímamót hjá 2002 árganginum í starfi knattspyrnudeildar en þau voru nú í haust að ljúka sínu síðasta ári í yngra flokka starfi okkar, mörg þeirra eftir rúman áratug á ferð og flugi um landið með boltann og allan tímann með Keflavíkurmerkið á bringunni.

Hópnum var boðið í pizzuveislu þar sem rifjaðar voru upp minningar sem tengdust sigrum, töpum, ferðalögum og einstakri liðsheild, svo eitthvað sé nefnt af öllu því sem á dagana hefur drifið yfir þetta langa og eftirminnilega tímabil. Að því loknu var stutt kynning á þeim möguleikum sem eru í boði á sviði knattspyrnunnar eftir að gengið er upp úr yngri flokkunum, hvar ætti að leita hjálpar eða upplýsinga og svo framvegis.

Helstu skilaboðin til iðkendanna voru að okkur hjá félaginu þykir vænt um þeirra framlag og að við vonumst til þess að okkar fólk hafi áhuga á að styðja við félagið í verki í framtíðinni og ekki síður að þeim sjálfum vegni sem allra best á öllum lífsins brautum.

Með kveðju

Knattspyrnudeild Keflavíkur

 

Myndasafn