ÚTTEKT: Frammistaðan í fyrri umferðinni
Þegar staðan í deildinni er u.þ.b. hálfnuð er tímabært að líta til baka og skoða frammistöðu liðsins og leikmanna það sem af er sumars. Af þessu tilefni leitaði heimasíðan til nokkurra "spekinga" sem hafa fylgst vel með Keflavíkurliðinu í sumar og bað þá um að meta liðið og leikmennina, gefa einkunnir og ræða aðeins hvað hefur verið jákvætt og neikvætt hingað til. Hér að neðan er samantekt á því sem þessir kappar höfðu að segja; þ.e. meðaleinkunn (gefið 1-5), yfirlit yfir það sem þótti jákvætt og neikvætt og að lokum tilvitnanir í umsagnir sérfræðinganna. Á eftir nafni hvers leikmanns kemur einkunn hans (1 til 5 boltar) og síðan stutt tölfræði yfir fyrstu 9 leikina í Íslandsmótinu í ár.
Umsagnirnar voru teknar saman eftir leik Keflavíkur og Víkings á dögunum en þá var deildarkeppnin nákvæmlega hálfnuð. Umsjónarmaður heimasíðunnar sá um að taka umsagnirnar saman í úttektina sem má sjá hér að neðan og hún er því á hans ábyrgð. Þeim sem vilja gera athugasemdir við niðurstöðurnar eða koma sinni eigin skoðun á framfæri er velkomið að senda umsjónarmanni tölvupóst.
Ómar Jóhannsson
9 leikir, 1 gult spjald / 810 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:9
Hefur átt fremur misjafnt tímabil en er að eflast með meiri reynslu. Hefur ekki enn náð að festa sig í sessi sem toppmarkmaður.
Jákvætt: Frábær milli stanganna. Lætur vel í sér heyra.
Neikvætt: Er ekki nógu öruggur. Þarf að bæta úthlaup, staðsetningar og að verjast föstum leikatriðum.
Spekingarnir sögðu:
"Hefur staðið sig alveg ágætlega í sumar en alltaf er hægt að bæta sig."
"Þarf að “eiga” teiginn betur."
"Er alhliða góður markmaður og er frábær í langskotum."
"Hefur alltaf verið efnilegur en vantar reynslu til að festa sig í sessi sem góður markvörður."
Guðjón Antoníusson
6 leikir / 451 mínúta (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:6 - Tekinn út af:2 - Á bekknum:2
Hefur átt mjög gott tímabil og var óheppinn að meiðast. Hefur verið traustur í vörninni og er búinn að sanna sig sem framtíðarleikmaður í liðinu.
Jákvætt: Góður varnarmaður, er líka sókndjarfur og spilar boltanum vel út úr vörninni. Duglegur og ósérhlífinn. Sterkur karakter.
Neikvætt: Meiddist á versta tíma. Vantar reynslu.
Spekingarnir sögðu:
"Hefur allt að bera til að ná enn lengra."
"Duglegur og leggur sig alltaf allan fram."
"Það á enginn mótherji auðvelt með að komast upp vinstri kantinn þegar Guðjón er í hægri bakverðinum."
"Virkaði óöruggur í byrjun miðað við hvernig hann spilaði á undirbúningstímabilinu. Óx ásmegin og er mjög traustur varnarmaður."
Brynjar Örn Guðmundsson
5 leikir / 344 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:3 - Kom inná:2 - Á bekknum:2
Hefur ekki náð sér á strik eftir að hann kom inn í liðið. Er ekki nógu ákveðinn og spurning hvort hægri bakvörðurinn sé rétta staðan fyrir hann.
Jákvætt: Gott hugarfar, leggur sig fram. Góður með boltann. Á framtíðina fyrir sér.
Neikvætt: Veldur ekki þessari stöðu. Vantar sjálfstraust.
Spekingarnir sögðu:
"Er óöruggur, sem er óþarfi. Vantar trú á því sem hann er að gera."
"Jákvætt að sjá hann kominn til baka eftir meiðsli í fyrra. Er framtíðarleikmaður."
"Óöruggur, vantar ákveðni."
"Hefur átt í vandræðum maður á mann."
Zoran Ljubicic
9 leikir, 1 gult spjald / 810 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:9
Hefur verið að spila vel í vörninni og verið stöðugur. Býr yfir mikilli reynslu sem er geysilega mikilvæg fyrir liðið.
Jákvætt: Góður karakter sem miðlar reynslu til annarra leikmanna. Mikið spil í kringum hann og kemur með boltann út úr vörninni.
Neikvætt: Farinn að missa hraðann og hangir stundum of mikið á boltanum. Vantar yfirferð til að hjálpa ungu strákunum í vörninni.
Spekingarnir sögðu:
"Zoran er góður leikmaður en hann er einfaldlega ekki varnarmaður."
"Reynsla hans vegur þungt í ungu liði okkar manna... fyrirmynd annarra leikmanna á vellinum."
"Er stundum of lengi að koma boltanum frá sér."
"Sterkur karakter og sæti hans í liðinu verður vandfyllt."
Haraldur Guðmundsson
9 leikir, 3 gul spjöld / 810 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:9
Hefur verið að spila geysilega vel, er búinn að sanna sig sem góður leikmaður og framtíðarstjarna.
Jákvætt: Sterkur, duglegur, skynsamur, með góðan vinstrifót, tapar varla skallabolta. Stöðugur og traustur.
Neikvætt: Vantar enn herslumuninn til að vera afgerandi leikmaður í fremstu röð. Ætti að nýtast betur í teig andstæðinganna.
Spekingarnir sögðu:
"...hefur allt að bera sem einkennir góðan miðvörð. Hávaxinn, sterkur og duglegur, leikinn með boltann og skynsamur."
"Er að sanna sig sem einn af betri ungu leikmönnum landsins."
"Án vafa okkar besti varnarmaður í áraraðir með fullri virðingu fyrir Sigga Björgvins."
"Búinn að eiga frábært tímabil, er örugglega framtíðarleikmaður íslenska landsliðsins."
Kristján Jóhannsson
9 leikir, 1 gult spjald / 810 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:9
Hefur verið traustur í sumar en getur enn bætt sig. Mikill keppnismaður sem þyrfti að vera yfirvegaðri á köflum.
Jákvætt: Sterkur og öflugur, góður skallamaður. Keppnismaður sem er harður af sér.
Neikvætt: Mætti bæta sendingarnar. Er stundum of fljótfær og þarf að passa skapið.
Spekingarnir sögðu:
"Meiri stöðugleiki en í fyrra."
"Hefur verið að spila boltanum meira frá sér... hættur að negla boltanum alltaf fram þegar hann fær hann."
"Hefur mikið keppnisskap og leggur sig fram í leikjum."
"Úrvals pípulagningarmaður."
![]() |
Víkurfréttir/Hilmar Bragi |
Hólmar Örn Rúnarsson
9 leikir, 4 mörk, 2 gul spjöld / 779 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:9 - Tekinn út af:5
Hefur tekið framförum og átt ágætt tímabil. Vantar stöðugleika og á það til að detta út úr leikjum. Á mikið inni.
Jákvætt: Flinkur með boltann, getur tekið menn á. Er að verða lykilleikmaður sem skorar og leggur upp mörk.
Neikvætt: Þarf að bæta sendingarnar. Ennþá of óstöðugur. Gleymir sér; fer þá of mikið inn á miðjuna og hjálpar ekki í vörninni.
Spekingarnir sögðu:
"Hans besta tímabil, hefur sýnt framfarir."
"Hefur sýnt á köflum hve góður hann er en á það til að detta niður í meðalmennsku."
"Duglegur að búa sér til færi til að skjóta utan teigs... þegar þannig liggur á honum er hann einn besti leikmaður okkar."
"Besta tímabil hans síðan hann byrjaði að spila fyrir meistaraflokk. Gaman að sjá Hólmar sýna hvað hann getur."
Jónas Guðni Sævarsson
9 leikir, 1 mark / 791 mínúta (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:9 - Tekinn út af:2
Búinn að eiga mjög gott tímabil og er að sanna sig sem toppmiðjumaður og framtíðarleikmaður hjá liðinu.
Jákvætt: Dugnaður, dugnaður, dugnaður. Ótrúlega vinnusamur og vinnur mörg návígi. Kemur boltanum líka vel frá sér.
Neikvætt: Mætti vera sókndjarfari og skjóta meira fyrir utan. Vantar auðvitað hæð (en bætir það yfirleitt upp með baráttu).
Spekingarnir sögðu:
"Hleypur endalaust og veit hvert hann er að hlaupa, mjög skynsamur."
"Það er ótrúlegt að horfa á vinnusemi hans leik eftir leik. Hann er út um allan völl og hlýtur að vera óþolandi mótherji."
"Vantar fleiri sendingar frá honum sem geta skapað usla í vörn andstæðinganna."
"Er full lágvaxinn, mætti stækka um nokkra sentimetra!"
Stefán Gíslason
9 leikir, 2 mörk, 1 gult spjald / 810 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:9
Búinn að að eiga frábært tímabil. Stjórnar öllu á miðjunni, er lykilmaður í liðinu og hefur reynst frábær liðsstyrkur.
Jákvætt: Berst á fullu allan leikinn, vinnur marga bolta á miðjunni, sterkur í loftinu og á frábærar sendingar.
Neikvætt: Mætti sækja meira fram og skjóta á markið. Hann og Jónas vilja liggja full aftarlega og eru stundum of rólegir á boltanum.
Spekingarnir sögðu:
"Kom með reynsluna og styrkinn sem hefur vantað á miðjunna. Besti miðjumaðurinn okkar og gríðarlega mikilvægur hlekkur."
"Góður alhliða leikmaður. Gæti vel leikið miðvörð en liðið má ekki missa hann af miðjunni."
"Væri gaman að sjá hann taka meiri þátt í sóknarleik liðsins."
"Við eigum eftir að missa hann alltof fljótt aftur í atvinnumennsku."
Ólafur Ívar Jónsson
9 leikir, 1 mark / 497 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:6 - Tekinn út af:6 - Kom inn á:3
Hefur átt ágætt tímabil en ekki náð að festa sig í sessi. Myndi jafnvel henta honum betur að spila sem vinstri bakvörður.
Jákvætt: Duglegur og samviskusamur. Berst vel, er harður af sér og vinnur vel fyrir liðið.
Neikvætt: Ekki sterkur sóknarlega, skilar boltanum ekki nógu vel frá sér og kemur ekki með nógu góðar fyrirgjafir.
Spekingarnir sögðu:
"Leikmaður sem gefur sig allan í leikinn."
"Engar fyrirgjafir af kantmanni að vera. Lítið ógnandi sóknarlega."
"Hefur skilað þeim stöðum sem hann hefur spilað mjög vel."
"... er ekki alveg sá kantmaður sem liðið þarf."
Adolf Sveinsson
5 leikir, 1 mark / 214 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:2 - Tekinn út af:1 - Kom inn á:3 - Á bekknum:1
Hefur ekki sýnt mikið í sumar en ekki fengið mörg tækifæri. Virðist seint ætla að sanna sig sem alvöruleikmaður.
Jákvætt: Hraði, hraði, hraði. Er fljótur og með ágætan vinstri fót.
Neikvætt: Hugarfarið, hugarfarið, hugarfarið. Lætur skapið stjórna sér, vantar einbeitinguna, fljótur að verða pirraður.
Spekingarnir sögðu:
"Einbeitir sér að öðrum hlutum en hann á að gera í leikjum, lætur allt fara í taugarnar á sér."
"Skilar lítilli sem engri varnarvinnu. Fljótur að verða pirraður ef hlutirnir eru ekki að ganga upp."
"Mjög góður sóknarlega og hraðinn kemur sér vel fyrir liðið. "
"Er mjög fljótur en það er ekki að skila neinu."
Scott Ramsay
5 leikir, 1 mark / 137 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:1 - Tekinn út af:1 - Kom inn á:4
Er ekki í formi og hefur ekki spilað mikið en verður lykilmaður í liðinu þegar hann er kominn í form.
Jákvætt: Leikinn og útsjónarsamur, með frábærar sendingar. Mjög skapandi og ógnandi.
Neikvætt: Þungur og ekki í formi.
Spekingarnir sögðu:
"Er enn að koma sér í form. Hefur þó sýnt snilldartakta og gjörbreytt a.m.k einum leik með góðri innkomu."
"Hefur leikni sem fáir á Íslandi búa yfir."
"Er að komast í gang og þær mínútur sem hann hefur spilað hefur hann sýnt mjög góðan leik."
"Maðurinn er ekki í neinu formi. Einfalt mál."
![]() |
Víkurfréttir/Hilmar Bragi |
Magnús Þorsteinsson
9 leikir, 7 mörk / 723 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:9 - Tekinn út af:6
Hefur átt gott tímabil og er að sanna sig sem framherji og markaskorari eftir að hafa mikið leikið á köntunum.
Jákvætt: Leikinn og fljótur, skapar mikinn usla og er duglegur að taka menn á. Skapar sér færi...
Neikvætt: ...en nýtir þau ekki nógu vel. Kærulaus einn á móti einum. Er stundum latur (eins og flestir framherjar).
Spekingarnir sögðu:
"Vill helst sóla sér leið inn í markið. Fer stundum erfiðu leiðina að markinu."
"... er alltaf hættulegur þegar hann er með boltann."
"Miklu betra tímabil en í fyrra. Kominn með sjálfstraust."
"Skorar mörk!"
Þórarinn Kristjánsson
8 leikir, 6 mörk, 1 gult spjald / 624 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:7 - Tekinn út af:2 - Kom inn á:1
Er búinn að eiga mjög gott tímabil. Einn reyndasti leikmaður liðsins þrátt fyrir ungan aldur. Á að geta orðið enn betri.
Jákvætt: Leikinn og líkamlega sterkur. Er með góða boltameðferð, tekur vel á móti boltanum og heldur honum vel.
Neikvætt: Á til að detta niður og hverfa í leikjunum. Ekki nógu gráðugur fyrir framherja.
Spekingarnir sögðu:
"Er okkar besti sóknarmaður."
"Berst vel, skapar mikið fyrir liðið og er mjög mikilvægur hlekkur í liðinu."
"Getur skorað mörk upp á sitt einsdæmi... á til að fara erfiðu leiðina að markinu."
"Heldur bolta vel og getur skapað færi fyrir samherja sína."
Hörður Sveinsson
9 leikir, 1 mark / 266 mínútur (af 810 mögulegum)
Byrjaði inn á:2 - Tekinn út af:1 - Kom inn á:7
Hefur lítið fengið að spreyta sig og ekki náð sér á strik. Á mikið inni og á eftir að standa sig vel þegar hann fær fleiri tækifæri.
Jákvætt: Fljótur og sterkur. Vinnusamur. Er markaskorari og á framtíðina fyrir sér.
Neikvætt: Þarf að nýta færin betur. Vantar einfaldlega reynslu og að fá fleiri tækifæri.
Spekingarnir sögðu:
"Mjög áræðinn, veður á hlutina án þess að hika."
"Virtist mun sprækari í fyrra... hefur að vísu lítið fengið að spreyta sig."
"Var að fá færi... mikil hætta í kringum hann."
"Á eftir að spila meira og standa sig vel."
![]() |
Víkurfréttir/Hilmar Bragi |
Milan Stefán Jankovic, þjálfari
9 leikir, 20 leikmenn hafa verið í hóp, 18 hafa spilað, 10 hafa spilað alla leikina
Er að gera frábæra hluti með liðið. Hæfur og metnaðargjarn þjálfari sem vill leika góðan fótbolta. Hefur trú á liðinu og leikmönnunum.
Jákvætt: Agaður og ákveðinn. Liðið er að leika góðan bolta, taktíkin er skýr. Leikmenn komast ekki upp með neitt hálfkák.
Neikvætt: Leikstíllinn mætti stundum vera beinskeyttari. Mætti vera kaldari í innáskiptingum, skiptir stundum of seint inn á.
Spekingarnir sögðu:
"Lætur liðið spila mjög góðan bolta... liðið er nánast laust við “kick and run” og háloftaspyrnur, sem er mjög sérstakt fyrir íslenskt lið."
"Hefur óbilandi traust og trú á leikmönnum liðsins og getu."
"Hefur stjórn á öllu sem gerist hjá liðinu, innan vallar sem utan."
"Klassaþjálfari."
Liðið í heild
9 leikir, 7 sigrar - 1 jafntefli - 1 tap, markatalan 25-10
Liðið hefur auðsjáanlega verið að spila vel og spilar góðan fótbolta. Vantar þó meiri stöðugleika.
Jákvætt: Góður heildarsvipur á liðinu, spilar góðan bolta frá vörn og fram á fremstu menn. Samheldinn hópur leikmanna sem hefur spilað saman alla yngri flokkana. Mikið af ungum og efnilegum leikmönnum.
Neikvætt: Föst leikatriði; nýtum þau illa og gengur illa að verjast þeim. Vantar skotmenn og meiri ógn utan af vellinum. Skortur á reynslu og hæð. Líkur á því að missa máttarstólpa liðsins annað hvort í atvinnumennsku eða í stærri lið hér heima.
Spekingarnir sögðu:
"Eiga að fara upp, annað væri skandall."
"Veikleikar í vörninni, í raun aðeins einn alvöru varnarmaður, vantar öflugan miðvörð. Miðjan er öflug, gott spil en mættu vera beinskeyttari fram á við. Sóknarmennirnir hafa staðið sig vel og skorað nóg af mörkum."
"Liðið spilar góðan bolta frá aftasta varnarmanni til fremsta manns, lítið um kýlingar og vanhugsaðar “draumasendingar”."
"Keflavík er loksins farið að spila skemmtilega knattspyrnu í fyrsta skipti í mörg ár."
"Það er ljóst að gríðarlega mikið býr í liðinu og stjórnin ætti að einbeita sér að því að halda sama hóp næsta tímabil."
"Liðið er að venjast nýjum leikstíl... það hafa komið kaflar þar sem það er ekki að ganga upp."
"Miðjumennirnir mættu skjóta meira utan teigs, það er orðið alllangt síðan almennileg bomba sást í leikjum Keflavíkur."
Eftirtaldir leikmenn voru einnig í leikmannahópnum í fyrri umferð deildarinnar en komu ekki inn á eða spiluðu of lítið til að sanngjarnt sé að gefa þeim einkunn eða meta frammistöðu þeirra. Í staðinn voru þeir sem skiluðu inn umsögnunum um liðið beðnir um að koma með smáumsögn um hvern þessara leikmanna.
Hafsteinn Rúnarsson
2 leikir, 1 mark / 17 mínútur (af 810 mögulegum)
Kom inn á:2 - Á bekknum:1
Spekingarnir sögðu:
"Kröftugur strákur en þeir sem eru á undan eru einfaldlega betri. Kemur með reynslunni."
"Efnilegur, svolítið villtur."
"Spilar meira af kappi en forsjá. Baráttuhundur. Á mikið inni."
"Leikmaður sem leggur sig 110% í leikina. Minnir mann dálítið á Heiðar Helguson, nema hvað Hafsteinn er mun betri knattspyrnumaður. Hann er leikmaður sem gott er að hafa á bekknum, hann getur brotið upp leikina og skapað mikinn usla. Mætti aga sig aðeins."
Haraldur Axel Einarsson
2 leikir, / 9 mínútur (af 810 mögulegum)
Kom inn á:2
Spekingarnir sögðu:
"Hefur tekið gríðarlegum framförum síðasta árið. Vantar að finna stöðu fyrir hann á vellinum sem hann getur einbeitt sér að."
"Spilaði vel á undirbúningstímabilinu og hefur mikið komið til sem leikmaður. Miklar framfarir."
"Er ágætis knattspyrnumaður, en það vantar allan kraft og frumlegheit í leik hans."
Ingvi Rafn Guðmundsson
2 leikir, / 8 mínútur (af 810 mögulegum)
Kom inn á:2 - Á bekknum:1
Spekingarnir sögðu:
"Gríðarlega efnilegur strákur. Vantar styrk og reynslu sem kemur bara með tímanum. Á eftir að verða mjög öflugur leikmaður."
"Hörkuefni þarna á ferðinni."
"Gríðarlegt efni þar á ferð. Vel spilandi og gæti hlaupið stanslaust í tvær vikur. Svipaður leikmaður og Jónas, bara yngri og sókndjarfari. Framtíðar lykilmaður."
"Frábær leikmaður, berst vel og leggur sig 100% í leikinn. Vinnur vel, með góðar sendingar. Skapar mikið. Skemmir fyrir honum hversu líkur hann er Jónasi sem leikmaður. Það er ekki pláss fyrir tvo svona leikmenn."
Magnús Þormar
Á bekknum:9
Spekingarnir sögðu:
"Getur varið vel. Vantar stöðugleika, stundum er eins og hann hafi enga trú á að hann geti varið en stundum virkar hann eins og klassamarkmaður."
"Ungur og efnilegur. Hefur gert honum mjög gott að vera varamarkvörður. Sýnt mikið traust þrátt fyrir ungan aldur. Fékk mikið að spila í vetur."
"Framtíðar markmaður. Ver vel en á það til að eiga erfitt með að halda boltanum eftir að hafa varið skot."
Hjörtur Fjeldsted
Á bekknum:3
Spekingarnir sögðu:
"Hefur lítið sést til hans. Snöggur en vantar að halda stöðu sinni. Þarf að bæta sig allverulega ef hann ætlar sér að verða framtíðarleikmaður í Keflavíkurliðinu."
"Góður leikmaður, en er að berjast við of marga góða leikmenn um stöður í liðinu."
"Hefur valdið vonbrigðum, virtist ætla að verða toppbakvörður en hefur ekki náð að fylgja því eftir. T.d. eru sendingar slakar. Á að geta spilað vel og gott að hafa svona mann í hópnum."
![]() |
Víkurfréttir/Hilmar Bragi |