Fréttir

Knattspyrna | 26. september 2003

ÚTTEKT: Sumarið hjá yngri flokkum stúlkna

Í gær birtist á síðunni yfirlit yfir gang mála hjá yngri flokkum pilta í sumar og nú er komið að stúlkunum.  Hér á eftir fer yfirlit sem Elís Kristjánsson, þjálfari yngri flokka stúlkna, hefur tekið saman um sumarið hjá stelpunum.

6. flokkur
Sökum þess hvað flokkurinn var fámennur (aðeins eitt lið og stundum ekki það) reyndist erfitt að útvega æfingaleiki fyrir stelpurnar.  Þó urðu á vegi okkar nokkur mót á þessu tímabili.  Á milli jóla og nýárs var farið á innanhúsmót í Kópavogi og liðið tók þátt í Faxaflóamóti þar sem að það hafnaði í þriðja sæti í sínum riðli.  Þá var farið á Selfoss og spilað þar.  Einnig fóru nokkrar stelpur á gullmót JB og spiluðu þar með 5. flokki.  Þá var farið á Fossvogsmótið hjá HK og að lokum var svo leikið á Suðurnesjamóti.  Þegar á heildina er litið voru stelpurnar að standa sig mjög vel.

5. flokkur
Sama var upp á teningnum í 5. flokki; oft þurfti að nota stelpur úr 6. flokki til að geta mannað lið í mótum.  Spilað var í jólamóti í Fífunni þar sem liðið lenti í öðru sæti eftir að hafa tapað á hlutkesti í úrslitaleiknum.  Í Faxaflóamótinu lentu stelpurnar í fyrsta sæti í sínum riðli og töpuðu ekki leik.  Farið var á Húsasmiðjumót Víkings í Reykjavík, einnig var farið á Selfoss en það mót sigruðu stelpurnar og urðu einnig meistarar í reiptogi.  Á gullmóti JB í Kópavogi komu stelpurnar svo sannarlega á óvart með því að hafna í fjórða sæti en þess má geta að við vorum með fjórar stelpur úr 6. flokki í þessu móti.  Í Hnátumótinu sem fram fór hér heima vorum við enn og aftur að fá stelpur úr 6. flokki til liðs við okkur.  Samt náðist ekki að manna lið og var því ákveðið að fá eina stelpu sem kom með frænku sinni að horfa á til að gerast markvörður okkar.  Farið var á Fossvogsmót hjá HK.  Að lokum urðu stelpurnar Suðurnesjameistarar og er ekki annað hægt að segja en að tímabilið hafi verið mjög gott og eiga stelpurnar virkilega hrós skilið.

4. flokkur
Flokkurinn tefldi fram A- og B-liðum á þessu tímabili.  Byrjað var á jólamótinu í Kópavogiar þar sem A-liðið sigraði.  Íslandsmótið innanhúss fór fram í Garðinum og var aðeins spilað í A-liðum; þar lentum við í öðru sæti í okkar riðli.  Í Faxaflóamótinu lenti A-liðið í þriðja sæti í sínum riðli en B-lið varð í neðsta sæti í sínum riðli.  Þá tók flokkurinn þátt í Húsasmiðjumóti Víkings en þar lenti B-liðið í öðru sæti.  Flokkurinn tók þátt á ReyCup sem er alþjóðlegt mót á vegum Þróttar R. og ÍT-ferða en mótið stóð yfir í 4 daga.  Fyrirkomulagið á þessu móti þótti ansi skrýtið í 4. flokki kvenna en að móti loknu hampaði A-liðið bronsverðlaunum.  Líkt og 6. og 5. flokkur tóku stelpurnar þátt í Fossvogsmóti HK; þar lenti A-liðið í öðru sæti og B-liðið í því þriðja í keppni B-liða.  Í Íslandsmótinu hafnaði A-liðið í áttunda sæti af tólf liðum, B-liðið lenti í sjötta sæti af níu liðum.  Þess ber að geta að flestar stelpurnar eru á yngra ári og voru að spila gegn sér eldri stelpum í öllum liðum.  Því gæti næsta sumar orðið spennandi fyrir þennan flokk.  Á Suðurnesjamótinu lentu stelpurnar í öðru sæti.  Ef hugarfarið og viljinn hjá þessum stelpum verður fyrir hendi næsta tímabil gæti 4. flokkur gert það gott.

3. flokkur
Vitað var að tímabilið gæti orðið erfitt en stelpurnar voru einmitt að stíga sín fyrstu spor í 11 manna bolta.  Byrjað var á jólamóti Breiðabliks en þar var reyndar spilaður 7 manna bolti.  Á Íslandsmótinu innanhúss urðum við í neðsta sæti okkar riðils.  Í Faxaflóamótinu var komið að 11 manna bolta, flokkurinn var fjölmennur og gátum við því stillt upp tveimur 11 manna liðum.  A-liðið lenti í fjórða sæti í sínum riðli en B-liðið í neðsta sæti í sínum riðli, reyndar voru þær að spila gegn A-liðum.  Í byrjun júní fór flokkurinn í æfingaferð til Lalandía í Danmörku.  Í Danaveldi var dvalið í vikutíma og æft tvisvar á dag.  Þessi ferð tókst einstaklega vel og höfðu allir gaman að.  Seinnipart júní fóru níu stelpur aftur til Danmerkur og nú var farið á vinarbæjarmót í Hjörring.  Stelpurnar spiluðu fjóra leiki á þessu móti þar sem tveir leikir unnust og tveir töpuðust.  Í Íslandsmótinu vorum við bæði með 11 manna og 7 manna lið.  Í 11 manna liðum lentu stelpurnar í níunda sæti af ellefu liðum en 7 manna liðið var hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina.  Síðasta mótið á þessu tímabili var svo Suðurnesjamótið.  Það mót sigruðu stelpurnar eftir hörku úrslitaleik við Grindavík en vítaspyrnukeppni þurfti til að fá sigurvegara.  Meirihluti okkar stelpna var á yngra ári og ættu því að koma til leiks næsta tímabil reynslunni ríkari í 11 manna bolta sem er ólíkur þeim bolta sem er spilaður í 7 manna liðum.  Það er eins með þær og stelpurnar í 4. flokki; ef hugarfarið er rétt og æfingar og leikir eru teknir alvarlega gætu þessar stelpur gert það gott næsta sumar.