Valletta í UEFA, Þór í VISA
Það er óhætt að segja að mánudagurinn 22. júní hafi verið dráttardagurinn mikli en Keflavíkurliðið var þá í pottinum í undankeppni UEFA-keppninnar eða Europa League og einnig í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins.
Í Evrópukeppninni drógumst við gegn Valletta frá Möltu. Fyrri leikurinn fer fram á Möltu 2. júlí en sá seinni í Keflavík 9. júlí. Valletta er annað af tveimur helstu liðunum á Möltu og kemur frá höfuðborginni Valletta. Félagið hefur 19 sinnum orðið meistari í heimalandinu og unnið bikarinn ellefu sinnum. Liðið hefur verið fastagestur í Evrópukeppnum áratugum saman. Á nýliðinni leiktíð hafnaði Valletta í 2. sæti deildarinnar og tekur því þátt í UEFA-keppninni að þessu sinni. Flestir leikmenn liðsins koma frá Möltu en á dögunum gekk hinn hollenski Jordi Cryuff til liðs við þá og verður bæði leikmaður og aðstoðarþjálfari á næsta keppnistímabili. Þegar er búið að draga í 2. umferð undankeppninnar og þar leikur Keflavík eða Valletta við írska liðið St. Patricks.
Í VISA-bikarnum fengum við heimaleik gegn Þór frá Akureyri. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum sunnudaginn 5. júlí kl. 16:00. Þórsarar sigruðu Magna 2-1 í 2. umferð keppninnar og lögðu síðan Víking Ólafsvík 3-1 í 32 liða úrslitunum. Keflavík og Þór hafa þrisvar áður mæst í bikarkeppninni. Árið 1987 vann Þór í vítaspyrnukeppni á heimavelli sínum eftir 2-2 jafntefli í 8 liða úrslitum. Árið 1991 mættust liðin í 32 liða úrslitum keppninnar og aftur vann Þór á heimavelli í vítaspyrnukeppni, að þessu sinni eftir 1-1 jafntefli. Tveimur árum seinna tókst Keflavík loks að sigra Þór í bikarnum. Liðin mættust þá í 16 liða úrslitum á Keflavíkurvelli og skoraði Óli Þór Magnússon eina mark leiksins.