Fréttir

Valur - Keflavík á fimmtudag kl. 20:30
Knattspyrna | 7. maí 2014

Valur - Keflavík á fimmtudag kl. 20:30

Fimmtudaginn 8. maí heimsækja okkar menn Val í 2. umferð Pepsi-deildarinnar.  Við  vekjum athygli á því að leikurinn fer fram á gervigravellinum í Laugardagl og hefst kl. 20:30.  Bæði lið unnu góða sigra í fyrstu umferðinni og mæta til leiks full sjálfstrausts. Dómari leiksins verður Valgeir Valgeirsson, aðstoðardómarar þeir Gunnar Sverrir Gunnarsson og Bryngeir Valdimarsson, varadómari er Pétur Guðmundsson og eftirlitsmaður KSÍ er Þórður Ingi Guðjónsson.  Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Keflavík og Valur hafa leikið 93 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1958 þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli.  Þess má geta að Sigurður Albertsson skoraði mark Keflavíkur í þeim leik.  Keflavík hefur unnið 31 leikjanna, Valur hefur hins vegar sigrað 36 sinnum en 26 leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 134-148, Val í hag.  Stærsti sigur Vals í leikjum liðanna var 7-1 sigur á Hlíðarenda árið 1987 og það er jafnframt mesti markaleikur sem liðin hafa háð ásamt 4-4 jafntefli í Keflavík árið 1999 og 5-3 sigri Keflavíkur árið 2008.  Stærstu sigrar Keflavíkur hafa verið með fjögurra marka mun, tveir 4-0 sigrar árið 1973 og 5-1 sigur árið 1964.  Fjórir leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Val; Hörður Sveinsson hefur skorað fimm mörk og þeir Daníel Gylfason, Jóhann Birnir Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson hafa skorað eitt mark hver.  Sá leikmaður Keflavíkur sem hefur skorað flest mörk gegn Val í efstu deild er Steinar Jóhannsson sem gerði níu mörk en næstur er Jón Ólafur Jónsson með átta.

Liðin hafa mæst sex sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1970 en síðast árið 1997.  Keflavík hefur unnið 4 leiki en Valur 2; markatalan þar er 13-8 fyrir Keflavík.  Jóhann B. Guðmundsson hefur skorað þrjú bikarmörk gegn Val en þau komu öll í 5-1 sigri í framlengdum leik árið 1997.  Leikurinn var í 8 liða úrslitum en Keflavík varð einmitt bikarmeistari þetta ár.

Síðasta sumar unnu liðin sinn hvorn leikinn í viðureignum sínum í Pepsi-deildinni.  Valsmenn unnu öruggan 4-0 sigur á heimavelli sínum en þar skoraði Rúnar Már Sigurjónsson tvö mörk og Kolbeinn Kárason og Haukur Páll Sigurðsson eitt mark hvor.  Keflavík vann síðan sinn heimaleik 2-0 á Nettó-vellinum þar sem Daníel Gylfason og  Hörður Sveinsson gerðu mörkin undir lok leiksins.

Þó nokkrir leikmenn hafa leikið fyrir Keflavík og Val í gegnum árin og hafa tveir leikmenn okkar áður leikið fyrir Val en það eru Hörður Sveinsson og Halldór Kristinn Halldórsson.  Áður höfðu m.a. Guðmundur Viðar Mete, Jakob Már Jónharðsson, Adolf Sveinsson, Bjarni Sigurðsson, Sigurjón Kristjánsson og Hafsteinn Guðmundsson leikið fyrir bæði liðin.  Þá hafa þessi lið ekki síður haft sömu þjálfara en Óli B. Jónsson, Guðbjörn Jónsson, Ian Ross, Ingi Björn Albertsson, Willum Þór Þórsson og Kristján Guðmundsson hafa allir þjálfað bæði lið.

Úrslit í leikjum Vals og Keflavíkur á heimavelli Valsmanna hafa orðið þessi undanfarin ár:

2013 Valur - Keflavík 4-0  
2012 Valur - Keflavík 4-0  
2011 Valur - Keflavík 0-1 Ísak Örn Þórðarson
2010 Valur - Keflavík 0-2 Guðjón Árni Antoníusson
Brynjar Örn Guðmundsson
2009 Valur - Keflavík 2-2 Haukur Ingi Guðnason
Jóhann B. Guðmundsson
2008 Valur - Keflavík 1-1 Hólmar Örn Rúnarsson
2007 Valur - Keflavík 2-2 Þórarinn Kristjánsson
Baldur Sigurðsson
2006 Valur - Keflavík 0-0  
2005 Valur - Keflavík 0-0  
2001 Valur - Keflavík 1-1 Þórarinn Kristjánsson


Þrisvar hafa verið skoruð átta mörk í leikjum Keflavíkur og Vals í efstu deild.  Þar á meðal er 4-4 jafntefli í Keflavík árið 1999.  Arnór Guðjohnsen gerði tvö marka Vals í leiknum og meðal markaskorara Keflavíkur var Karl Finnbogason sem gerði þar fyrsta og eina mark sitt í efstu deild.  Meðal leikmanna Vals í leiknum voru sjónvarpsmennirnir Hjörvar Hafliðason og Hörður Magnússon og í liði Keflavíkur voru tveir fyrrverandi þjálfarar okkar, þeir Gunnar Oddssonn og Zoran Ljubicic.
Smellið á fréttina fyrir neðan til að sjá stærri útgáfu.