Valur - Keflavík á laugardag kl. 17:00
Á laugardaginn mætast Keflavík og Valur í 5. og umferð Landsbankadeildarinnar. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst kl. 17:00. Leikurinn átti upphaflega að fara fram fimmtudaginn 7. júní en var frestað vegna landsleikja vikunnar þar sem Símun Samuelsen og Valsarinn Birkir Már Sævarsson tóku þátt. Það má reikna með hörkuleik í Laugardalnum enda ætla bæði lið sér að ógna FH-ingum á toppi deildarinnar. Valsmenn eru nú í 2. sæti deildarinnar með 8 stig og Keflavík í 3.-5. sæti með 7 stig. Dómari leiksins verður Erlendur Eiríksson en aðstoðardómarar þeir Leiknir Ágústsson og Kristján Tryggvi Sigurðsson.
Keflavík og Valur hafa leikið 79 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1958 þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli. Þess má geta að Sigurður Albertsson skoraði mark Keflavíkur í þeim leik. Keflavík hefur unnið 25 leikjanna, Valur hefur hins vegar sigrað 31 sinni en 23 leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 112-122, Val í hag. Stærsti sigur Vals í leikjum liðanna var 7-1 sigur á Hlíðarenda árið 1987 og það er jafnframt mesti markaleikur sem liðin hafa háð ásamt 4-4 jafntefli í Keflavík árið 1999. Stærstu sigrar Keflavíkur hafa verið með fjögurra marka mun, tveir 4-0 sigrar árið 1973 og 5-1 sigur árið 1964. Fjórir leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hefur skorað gegn Val; Þórarinn Kristjánsson hefur skorað þrjú mörk, Guðmundur Steinarsson tvö og þeir Stefán Örn Arnarson, Magnús Þorsteinsson hafa skorað eitt mark hvor.
Liðin hafa mæst sex sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1970 en síðast árið 1997. Keflavíkur hefur unnið 4 fjóra leiki en Valur 2; markatalan þar er 13-8 fyrir Keflavík.
Liðin mættust tvisvar í Landsbankadeildarinnar í fyrrasumar eins og lög gera ráð fyrir. Í fyrri leiknum varð markalaust jafntefli á Laugardalsvelli í einum leiðinlegasta leik sumarsins. Þess má þó geta að liðin voru þá að leika marga leiki á stuttum tíma en Keflavíkurliðið var þá á fullu í Evrópukeppninni. Síðari leik liðanna lauk einnig með jafntefli en hvort lið skoraði eitt mark á Keflavíkurvelli. Guðmundur Benediktsson kom Valsmönnum yfir en nafni hans Steinarsson jafnaði fyrir okkar menn.
Undanfarin ár hefur Keflavík átt góðu gengi að fagna í útileikjum gegn Val. Síðustu þremur leikjum hefur lokið með jafntefli og Valsmenn unnu síðast heimaleik gegn Keflavík árið 1997. Í síðustu tíu leikjum á heimavelli Vals hefur fimm sinnum orðið jafntefli, Keflavík hefur unnið þrjá leiki en Valur tvo.
Úrslit í leikjum Vals og Keflavíkur á heimavelli Vals hafa orðið þessi undanfarin ár:
2006 |
Valur - Keflavík |
0-0 | |||
2005 |
Valur - Keflavík |
0-0 | |||
2001 |
Valur - Keflavík |
1-1 | Þórarinn Kristjánsson | ||
1999 |
Valur - Keflavík |
2-3 | Gunnar Oddsson Þórarinn Kristjánsson Kristján Brooks | ||
1998 |
Valur - Keflavík |
0-1 | Guðmundur Steinarsson | ||
1997 |
Valur - Keflavík |
2-1 | Eysteinn Hauksson | ||
1996 |
Valur - Keflavík |
2-1 | Eysteinn Hauksson | ||
1995 |
Valur - Keflavík |
0-0 | |||
1994 |
Valur - Keflavík |
1-1 | Marco Tanasic | ||
1993 |
Valur - Keflavík |
0-2 | Kjartan Einarsson Óli Þór Magnúson |
Frétt úr Morgunblaðinu um leik Vals og Keflavíkur að Hlíðarenda í ágúst 1993.
Fyrirsögnin er „Kraftmiklir Keflvíkingar“ en Keflavík vann leikinn 2-0.
(Gagnasafn Morgunblaðsins)