Valur - Keflavík á sunnudag kl. 16:00
Sunnudaginn 27. júní heimsækja okkar menn Val í 9. umferð Pepsi-deildarinnar. Leikurinn fer fram á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda og hefst kl. 16:00. Fyrir leikinn hafa bæði lið 15 stig og það lið sem sigrar í leiknum getur náð efsta sæti deildarinnar. Það er því til mikils að vinna og okkar menn þurfa að rífa sig upp eftir heldur rýra uppskeru úr síðustu leikjum. Dómari leiksins verður hinn litríki Jóhannes Valgeirsson, aðstoðardómarar þeir Einar Sigurðsson og Eðvarð Eðvarðsson og varadómari er Gunnar Sverrir Gunnarsson. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Keflavík og Valur hafa leikið 85 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1958 þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli. Þess má geta að Sigurður Albertsson skoraði mark Keflavíkur í þeim leik. Keflavík hefur unnið 27 leikjanna, Valur hefur hins vegar sigrað 32 sinnum en 26 leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 126-131, Val í hag. Stærsti sigur Vals í leikjum liðanna var 7-1 sigur á Hlíðarenda árið 1987 og það er jafnframt mesti markaleikur sem liðin hafa háð ásamt 4-4 jafntefli í Keflavík árið 1999 og 5-3 sigri Keflavíkur árið 2008. Stærstu sigrar Keflavíkur hafa verið með fjögurra marka mun, tveir 4-0 sigrar árið 1973 og 5-1 sigur árið 1964. Sjö leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Val; Guðmundur Steinarsson og Haukur Ingi Guðnason hafa skorað fjögur mörk, Guðjón Árni Antoníusson og Hörður Sveinsson tvö hvor og þeir Jóhann B. Guðmundsson, Magnús Þorsteinsson og Hólmar Örn Rúnarsson hafa skorað eitt mark hver.
Liðin hafa mæst sex sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1970 en síðast árið 1997. Keflavíkur hefur unnið 4 leiki en Valur 2; markatalan þar er 13-8 fyrir Keflavík. Jóhann B. Guðmundsson hefur skorað þrjú bikarmörk gegn Val en þau komu öll í 5-1 sigri í framlengdum leik árið 1997. Leikurinn var í 8 liða úrslitum en Keflavík varð einmitt bikarmeistari þetta ár.
Liðin mættust tvisvar í Pepsi-deildinni síðasta sumar eins og einhverjir muna sjálfsagt eftir. Keflavík vann öruggan 3-0 sigur á heimavelli þar sem Guðjón Árni Antoníusson kom Keflavík yfir og Hörður Sveinsson bætti svo tveimur mörkum við. Seinni leiknum að Hlíðarenda lauk með 2-2 jafntefli þar sem Haukur Ingi Guðnason og Jóhann B. Guðmundsson skoruðu fyrir okkar menn en Pétur Georg Markan og Helgi Sigurðsson gerðu mörk heimamanna.
Keflavík hefur gengið vel í útileikjum gegn Val undanfarin ár og hefur ekki tapað síðustu átta útileikjum gegn Hlíðarendapiltum. Þó ótrúlegt sé hefur sex síðustu leikjum liðanna á Hlíðarenda lokið með jafntefli og þar áður vann Keflavík tvö ár í röð. Síðasta útitapið gegn Val var árið 1997.
Úrslit í leikjum Vals og Keflavíkur á heimavelli Valsmanna hafa orðið þessi undanfarin ár:
2009 |
Valur - Keflavík |
2-2 | Haukur Ingi Guðnason Jóhann B. Guðmundsson | ||
2008 |
Valur - Keflavík |
1-1 | Hólmar Örn Rúnarsson | ||
2007 |
Valur - Keflavík |
2-2 | Þórarinn Kristjánsson Baldur Sigurðsson | ||
2006 |
Valur - Keflavík |
0-0 | |||
2005 |
Valur - Keflavík |
0-0 | |||
2001 |
Valur - Keflavík |
1-1 | Þórarinn Kristjánsson | ||
1999 |
Valur - Keflavík |
2-3 | Gunnar Oddsson Þórarinn Kristjánsson Kristján Brooks | ||
1998 |
Valur - Keflavík |
0-1 | Guðmundur Steinarsson | ||
1997 |
Valur - Keflavík |
2-1 | Eysteinn Hauksson | ||
1996 |
Valur - Keflavík |
2-1 | Eysteinn Hauksson |