Vel heppnuð aðgerð hjá Ingva
Ingvi Rafn Guðmundsson er nú staddur í Hollandi þar sem hann fór í aðgerð í morgun vegna ökklameiðslanna sem hafa verið að hrjá hann í rúmt ár. Aðgerðin gekk vel að öllu leyti; beinnabbi var fjarlægður og svæðið við ökklann allt hreinsað. Þá var beinið sem verið hefur til vandræða slípað vandlega og höfðu menn á orði að Ingvi væri orðinn eins og vel slípaður demantur. Læknarnir voru ánægðir með árangurinn og töldu ekkert því til fyrirstöðu Ingvi gæti fljótlega byrjað í sjúkraþjálfun.
Með Ingva í för er Jón Örvar Arason, stjórnarmaður og allsherjarframkvæmdastjóri meistaraflokks karla. Þeir félagar báðu fyrir kveðju heim en þeir spóka sig nú í 20 gráðu hita úti í Amsterdam! Þeir koma heim á fimmtudag og koma til liðs við Keflavíkurliðið fyrir bikarúrslitaleikinn á laugardag. Ingvi var reyndar í svo góðu formi eftir aðgerðina að hann stefnir á byrjunarliðið gegn KR og taldi ekki veita af að koma félögum sínum til aðstoðar.