Vel heppnuð heimsókn til Wolves - Ferðasagan
Vel heppnaðri heimsókn til Wolverhampton er lokið.
Sigurbergur, Viktor, Valgeir og Kristján eru komnir heim reynslunni ríkari eftir virkilega vel heppnaða heimsókn til hins fornfræga félags Wolverhampton Wanderers. Vel var tekið á móti hópnum og allur aðbúnaður og umgjörð til fyrirmyndar hjá félaginu.
Á meðan Sigurbergur og Viktor léku knattspyrnu með ungliðaliðunum funduðu Valgeir og Kristján með stjórnarmönnum Akademíu Wolves annars vegar og stjórnarmönnum félagsins í heild hins vegar. Ljóst er að vilji er hjá báðum félögum um að taka upp samstarf milli félaganna og verður sú vinna þróuð á næstu mánuðum.
Eftir 12 tíma ferðalag á laugardeginum tókst hópnum að koma sér upp í heiðurssætin á Molineux, heimavelli Wolves, og sjá seinustu 20 mínúturnar í sigurleik þeirra gegn Charlton 2-0 þar sem sigurmarkið var skorað stuttu fyrir leikslok. Eftir stuttan fund á vellinum með yfirmönnum Wolves fór hópurinn á hótelið og lét ferðaþreytuna líða úr sér.
Á sunnudeginum var farið upp á æfingasvæði Wolves og fylgst með hörkuleikjum hjá yngri flokkum félagsins en Everton var í heimsókn þennan daginn. Nokkrir framtíðaratvinnumenn spiluðu skínandi fótbolta, vörðust vel og mokuðu inn mörkum og var virkilega gaman að sjá hversu mikla áherslu liðin lögðu á að spila knettinum með jörðinni, nýta tækni sína til hins ýtrasta og sýna frumkvæði í sóknarleik. Seinni partinn notaði hópurinn til þess að taka út búðirnar í miðbænum og sjá hvar væri hægt að framkvæma bestu kaupin.
Á mánudeginum spiluðu Sigurbergur og Viktor tvo innbyrðisleiki með liðum Wolves og stóðu sig feykivel. Sigurbergur skoraði eitt mark, stöngin inn, og lagði upp tvö mörk og Viktor hleypti engum framhjá sér í varnarleiknum og var öryggið uppmálað í fráspilinu. Strákarnir léku að sjálfsögðu í hinum sögufrægu appelsínugulu búningum Wolves... Um kvöldið var strákunum boðið í bíó og fylgdust með myndinni Stardust.
Á þriðjudeginum var leikur gegn Stoke City. Sigurbergur lék vel fyrstu 30 mínúturnar en varð þá að yfirgefa völlinn vegna bakmeiðsla og Viktor lék í 60 mínútur og stóð sig vel í öruggum sigri Wolves gegn Stoke. Viktor fékk þungt högg á ökklann í leiknum og þurfti á meðferð hjá sjúkraþjálfara að halda. Vegna meiðslanna léku strákarnir ekki fyrirhugaðan leik á miðvikudeginum, fóru samt upp á æfingasvæði og kvöddu meðspilara sína, þjálfara Akademíuliðs Wolves og stjórnarmenn. Meiðslin eru þó ekki alvarleg og Falur verður ekki í vandræðum með að koma strákunum strax í gang á næstu dögum. Því næst var haldið til London með lest, töskunum hent í geymslu og rölt um Hyde Park og farið inn í Kensington hverfið. Þar er hinn frægi ítalski veitingastaður Mario´s (uppáhalds pizzastaður Díönu heitinnar prinsessu) og að sjálfsögðu pöntuð hin flókna flatbaka “Margaríta”, enda drengirnir miklir matmenn!!!
Örlítil seinkun varð á brottför flugsins heim en ekkert sem hægt er að kvarta yfir og lentu félagarnir á miðnætti á Íslandi hæst ánægðir með ferðina enda ekki hægt annað eftir fádæma gestrisni þeirra félaga hjá Wolverhampton Wanderers...
Sigurbergur og Viktor í búningi Wolverahampton Wanderers.
Strákarnir tilbúnir í slaginn.
Kristján stjórnar af mikilli röggsemi. Reyndar enginn leikur í gangi...