Viðtal við Karl Hermannsson
Ég spilaði fyrst með meistaraflokki 1962, 17 ára gamall, og þá unnum við okkur upp í fyrstu deild. Mig minnir að Guðbjörn Jónsson, gamli KR-ingurinn og snillingurinn, hafi þjálfað okkur, en þá var Þorbjörn Kjærbo stórgolfari formaður knattspyrnuráðs.
Hvernig var æfingaaðstaða í upphafi?
Æfingaaðstoða var ekkert sérstök, en líklegast ekkert verri en tíðkaðist annarstaðar á landinu í þá daga. Við æfðum og spiluðum leikina á malarvellinum sem er ennþá í notkun, en mig minnir að við höfum byrjað að æfa og spila á grasvellinum í Njarðvíkum 1964, það gæti þó hafa verið 1963.
Voru margir að æfa með Keflavík þegar þú byrjaðir?
Æfingar voru ekki eins markvissar þá og síðar var. Á æfingum með meistaraflokki voru 16-20 að mig minnir.
Hver er eftirminnilegasti samherjinn sem þú hefur spilað með?
Ég var svo lengi í þessu að það er erfitt að gera upp á milli manna. Eftirminnilegastir eru allir vinirnir sem maður eignaðist í tengslum við þetta, bæði í Keflavíkurliðinu og öðrum liðum.
Hver er besti þjálfarinn sem þú hefur leikið hjá?
Joe Hooley var mjög góður og er líklegast sá besti, en hann kenndi okkur hluti sem gott hefði verið að læra fyrr á ferlinum. Þá hef ég hef alltaf haft taugar til Einars Helgasonar sem þjálfaði okkur 1971 og 72, náði mjög góðum árangri og lagði grunninn að liðinu 1973. Það var mjög skemmtilegur tími og við spiluðum skemmtilegan fótbolta hjá Einari.
Í gegnum tíðina er einhver sem þér finnst að eigi sérstakan heiður skilinn fyrir sitt framlag til Knattspyrnumála í Keflavík?
Það eru nokkrir menn sem eiga heiður skilinn fyrir störf sín í þágu knattspyrnunnar í Keflavík. Á árunum frá 1957-1980 stóðu þeir fremstir Hafsteinn Guðmundsson og Sigurður Steindórsson og skipa þeir stóran sess í sögu knattspyrnunnar í Keflavík. Á þessum tíma náðist mjög góður árangur, þ.e.a.s. við vorum að vinna meistaratitla reglulega og áttum marga landsliðsmenn í knattspyrnu. En þarna voru líka menn sem höfðu unnið í baklandinu störf sem mér finnst ekki hafa verið metin sem skildi. Þar koma upp í hugann menn eins og Þórhallur Guðjónsson, Gunnar Sveinsson, Friðjón Þorleifsson, Árni Þorgrímsson, Garðar Oddgeirsson, Ragnar Friðriksson og fleiri. Verða störf þessara manna seint fullþökkuð. Í seinni tíð eru líka menn sem hafa lagt mikla vinnu í uppbyggingu knattspyrnunnar þótt svo að það hafi ekki skilað í hús mörgum titlum, en margir menn hafa lagt til mikla vinnu og unnið óeigingjarnt starf. Þeim hefur kannski ekki verið þakkað nægjanlega þegar þeir voru að reka knattspyrnuna við erfiðar aðstæður og skuldir hrönnuðust upp. Sérstaklega árangursríkt fannst mér starf Rúnas Lúðvíkssonar, sem tók við stjórn knattspyrnudeildarinnar á erfiðum tíma og vann mikið tímamótastarf sem menn eru að njóta góðs af í dag. Þá eru ónefndir menn sem hafa styrkt knattspyrnuna dyggilega undanfarin ár eins og Jón Ólsen, Birgir Runólfsson og fleiri. Það sem hefur kannski alltaf vantað hérna í Keflavík það er meiri félagsandi, en mér sýnist það vera hægt og bítandi að fara til betra horfs.
Manstu eftir einhverju skemmtilegu atviki í leik? Og jafnvel sem áhorfandi?
Sérstökustu tilvikin voru kannski grátbrosleg. Kjartan Sigrtyggsson, markvörður okkar í gamla daga var mikill grallari og mjög skrautlegur markmaður. Hann gat varið eins og berserkur, en gat líka fengið á sig skondin mörk. Sérstaklega er mér minnisstætt mark sem hann fékk á sig á móti Val á Njarðvíkurvellinum. Hemmi Gunn elti bolta upp að hornfána vinstra megin og náði einhvern veginn að ná hárri fyrirgjöf fyrir markið. Kjarra fannst sem boltinn færi afturfyrir markið og hljóp afturfyrir markið til þess að taka við boltanum þar. En boltinn fór aldrei út fyrir og lenti í markinu. Kjarri hélt í netið bakatil furðu lostinn yfir hegðun knattarins. Hann fékk annað álíka skrautlegt mark á sig í sama leiknum. Þá er mér mjög minnisstætt atvik sem tengist líka markmanni, Þorsteini Ólafssyni. Hann var mjög sparkviss og skotfastur. Í leik á Keflavíkurvelli var búið að samþykkja eftir mikinn þrýsing frá Steina að hann fengi að taka næstu vítaspyrnu fyrir liðið og við fengum eina slíka í næsta deildarleik. Steini negldi á markið af miklum krafti en boltinn small í þverslánni og fór 30-40 metra til baka inn á völlinn. Ég gleymi aldrei þeirri sjón þegar Steini vinur hljóp sem fætur toguðu til baka. Það var mjög spaugilegt að sjá.
Vítið fræga frá Steina Óla gegn Val í maí 1975.
(Mynd: Friðþjófur Helgason / Morgunblaðið)
Hver er besti markmaður sem hefur spilað fyrir Keflavík frá því þú fórst að mæta á leiki?
Þorsteinn Ólafsson var frábær markmaður, líklegast sá besti, en Þorsteinn Bjarnason var líka feiknagóður á tímabili, báðir frábærir markmenn þegar þeir voru á hátindi ferils sins.
Hver er besti varnarmaður sem hefur spilað fyrir Keflavík frá því þú fórst að mæta á leiki?
Bestu varnarmenn sem ég hef spilað með í Keflavíkurliðinu eru ótvírætt Guðni Kjartansson og Einar Gunnarsson, erfitt að gera upp á milli þeirra, en þeir voru mjög ólíkir leikmenn. Ég hef alltaf dáðst af keppnisskapi og útsjónasemi Einars Gunnarssonar og held ég að leikmenn með hans hugarfar séu vandfundnir. Einar mætti alltaf tilbúinn leiks sama hvernig aðstæður voru og þoldi illa að menn væru með eitthvað væl. Þá var Gísli Torfason líka frábær varnarmaður, en þegar við spiluðum saman þá vorum við saman á miðjunni.
Hver er besti miðjumaður sem hefur spilað fyrir Keflavík frá því þú fórst að mæta á leiki?
Ég held að Magnús Torfason sé hæfileikaríkasti miðjumaður sem ég hef spilað með í Keflavíkurliðinu, en ferill hans var ekki langur. Magnús hafði frábæra yfirsýn, hafði góða tækni og var góður skotmaður. Skoraði oft frábær mörk.
Hver er besti sóknarmaður sem hefur spilað fyrir Keflavík frá því þú fórst að mæta á leiki?
Mesti markaskorarinn var Steinar Jóhannsson, hann var hreint út sagt ótrúlegur markaskorari og held ég að Ísland hafi ekki átt marga skæðari. Óli Júll var mjög góður sóknarmaður og varnarmenn áttu oft í miklum erfiðleikum með hann vegna hans góðu knattleikni, en hann var ekki mikill markaskorari. Þó fannst mér skemmtilegast að spila með Rúnna Júll, hann var bara svo stutt í þessu, hætti endanlega 1966 minnir mig. Við vorum búnir að spila saman í framlínunni frá því að við vorum pollar og náðum mjög vel saman.
Hvernig viltu sjá þróun knattspyrnumála hjá Keflavík?
Ég vil sjá þá þróun að lögð verði meiri áhersla á tækni, hraða og léttleika. Mér finnst of mikil árhesla vera lögð á stundarárangur, aðalatriðið virðist vera að vinna leikina og minni áhersla lögð á að kenna mönnum að spila knattspyrnu eins og á að leika hana. Vel leikin knattspyrna er listgrein og þetta á að vera skemmtun fyrir leikmenn og áhorfendur.
Sérðu einhvern framtíðar atvinnumann í leikmannahópi Keflvíkur í dag?
Það eru nokkrir efnilegir leikmenn í liðinu núna sem mér sýnist að geti orðið góðir. Mér finnst Hólmar Rúnarsson mjög skemmtilegur leikmaður og sama er að segja um Ingva Guðmundsson. Mér finnst vanta í liðið núna að menn þekki betur inn á hvorn annan og spili hvorn annan upp. Maður sér lítið um að menn taki svokallaðan þríhyrning, menn eru ekki að bjóða sig eða hreyfa sig á réttan hátt. Í leiknum á móti FH náðum við engan veginn að opna svæði bakvið vörn FH og vorum ekki að gera neitt markvisst í þá átt. Menn eru ekki að hreyfa sig rétt og við gerðum varnarmönnum FH auðvelt að loka svæðum, lokuðum þeim gjarnan sjálfir. Við þurfum að nýta betur hraða stráka eins og Harðar Sveins og Ingva Guðmunds. En ég hef engar áhyggjur af þessu, þetta kemur þegar menn fara að þekkja betur inn á hvorn annan og komast í betri leikæfingu. Ég var nokkuð ánægður með varnarleikinn, menn pressuðu vel manninn á boltanum og unnu ágætlega í heildina séð í síðasta leik, liðið virtist vera í ágætis æfingu.
Rúnar I. Hannah