Fréttir

Víkingur - Keflavík á fimmtudag kl. 19:15
Knattspyrna | 15. maí 2013

Víkingur - Keflavík á fimmtudag kl. 19:15

Fimmtudaginn 16. maí skreppa okkar menn til Ólafsvíkur og keppa við Víking í 3. umferð Pepsi-deildarinnar.  Leikurinn hefst á Ólafsvíkurvelli kl. 19:15.  Liðin eru bæði stigalaus að loknum tveimur umferðum og þurfa nauðsynlega að fara að krækja í stig.  Dómari leiksins verður Garðar Örn Hinriksson, aðstoðardómarar Sigurður Óli Þórleifsson og Birkir Sigurðarson og eftirlitsmaður KSÍ verður Þórður Georg Lárusson.

Hér komum við venjulega með langa upptalningu á fyrri leikjum Keflavíkur og andstæðinga okkar.  Það verður ekki að þessu sinni enda er þetta fyrsti leikur okkar gegn Víkingum sem eru auðvitað að leika í efstu deild í fyrsta sinn.  Við höfum reyndar leikið gegn Ólafsvíkingum í innimótum og árið 1997 vann U-23 ára lið Keflavíkur sigur á Víking í bikarkeppninni.  Meðal leikmanna Keflavíkur í þeim leik voru Ómar Jóhannsson, Guðmundur Steinarsson og Þórarinn Kristjánsson.  Árið 2000 mætti Keflavík síðan HSH eða Héraðssambandi Snæfellsnes og Hnappadalssýslu í bikarkeppninni en liðin á Snæfellsnesi léku þá saman undir merkjum HSH.  Keflavík vann þann leik 4-0 í Grundarfirði og voru Haraldur Freyr Guðmundsson og Zoran Daníel Ljubicic á meðal markaskorara og Gunnar Oddsson var fyrirliði liðsins.