Völlurinn vígður
Þá styttist í fyrsta leik sumarsins á Sparisjóðsvellinum en völlurinn verður tekinn í notkun sunnudaginn 4. júlí þegar okkar menn taka á móti FH í Pepsi-deildinni kl. 19:15. Fyrir leikinn verður vígsluathöfn á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefst hún kl. 17:00. Þar verður m.a. litið til baka í knattspyrnusögu Keflavíkur og verða leikmenn Íslandsmeistaraliðanna árin 1964, 1969, 1971 og 1973 heiðraðir með gullmerki Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Við völlinn verður svo boðið upp á grillaðar pylsur og hamborgara gegn vægu gjaldi þannig að það verður mikið um dýrðir á sunnudaginn og við hvetjum alla stuðningsmenn til að mæta og taka þátt.