Fréttir

Knattspyrna | 6. maí 2010

Willum í spjalli á fótbolti.net

Þjálfari vor Willum Þór var í spjalli við piltana á fótbolti.net á dögunum og við fengum leyfi þeirra til að birta viðtalið.

,,Það eru einhverjir spekingar sem eru vafalega búnir að íhuga þetta vandlega sem spá þessu og þeir byggja það á einhverjum leikjum á undirbúningstímabili og einhverju. Vonandi getum við lent eitthvað ofar en þetta setur okkur í toppbaráttuna og það er markmiðið að blanda okkur í hana til að byrja með," sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Keflavíkur við Fótbolta.net í dag um spá sérfræðinga Fótbolta.net sem spá liðinu 4. sæti í Pepsi deildinni. Við spurðum hann hvort Keflavík eigi ekki að berjast um titilinn í sumar?

,,Tímapunkturinn er ekki alveg réttur til að vera með þær yfirlýsingar en við reynum að vera nákvæmir í markmiðasetningunni. Þá þurfum við fyrst að sýna þann styrk að við getum blandað okkur í toppbaráttuna. Ef við gerum það nógu lengi og fram í lokaumferðir þá kemur vonandi sá tímapunktur að við getum neglt það að keyra á titilinn. Í þessari röð þarf þetta að gerast," sagði Willum.

Sjálfur hefur Willum alltaf verið að berjast um alla titla og sýnt að hann er hæfur í það verkefni því hann hefur unnið öll mót sem hann hefur keppt um hér á landi. En ætlar hann sér þá ekki að beita sér fyrir því áfram.
,,Jájá, en eitt er vilji og annað er metnaður. Metnaðurinn okkar í vetur hefur fólgist í þeirri vinnu sem þarf til að vera andlega og líkamlega búnir til að geta verið í toppbaráttunni í þessari deild. Við höfum fulla trú á því að við getum látið að okkur kveða í toppbaráttunni. Það er okkar fyrsta markmið að gera það, og óskastaðan þegar dregur að lokum mótsins er að við séum í þeirri stöðu að geta á meðal annarra liða í þeirri baráttu tekið stefnuna á titilinn sjálfan."

Undirbúningi Keflavíkur fyrir mótið lauk í gær með 3-1 sigri á Njarðvík í æfingaleik en liðið hafði áður unnið innnanhúsmótið og Reykjaneshallarmótið auk þess að komast í 8 liða úrslit Lengjubikarsins. Willum er ánægður með það sem komið er.
,,Við erum búnir að vinna mjög vel og spila fullt af leikjum, bæði æfingaleikjum og móta leikjum og erum búnir að láta reyna vel á okkur í undirbúningnum og komum þannig séð vel undirbúnir til leiks."

,,Við vorum búnir að koma öllu liðinu meiðslafríu fyrir ekki löngu síðan. En svo hefur Haukur Ingi átt í langvarandi meiðslum síðan í æfingaleik gegn FH 13. febrúar. Hann hefur lítið sem ekkert æft síðan við hefðbundnar fótboltaæfingar. Hann er reyndar duglegur að halda sér gangandi og í raun og veru til eftirbreytni hvaða hugarfar hann nær að sína í gegnum sína löngu meiðslasögu. Það er ótrúlegt hvað hann er sterkur og við þurfum á honum að halda."

,,Svo eru smávægileg meiðsli sem komu í veg fyrir að leikmenn tækju þátt í leiknum í gær, eins og Paul McShane, Brynjar, Andri Steinn og Magnús Þórir Matthíasson. Ég er vongóður um að þeir verði allir tiltækir fyrir fyrsta leik í móti."

Fyrsti leikur Keflavíkur er gegn liði Breiðabliks á þriðjudagskvöld en það er heimaleikur Keflavíkur. Breiðabliks liðið vann VISA-bikarinn í fyrra og virkar ógnarsterkt.
,,Þeir eru með gríðarlega frambærilegt lið og eru búnir að láta að sér kveða í vetrarmótunum og fóru í úrslit í deildabikarnumm og að spila í meistarar meistaranna í kvöld. Þeir eru með hörkulið. Við erum ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrsta leik. En það eru allir leikirnir í deildinni erfiðir. Þróunin hefur verið þannig að liðin hafa verið að styrkjast og jafnast síðasta áratuginn og þrátt fyrir að FH hafi sýnt mjög góðan stöðugleika á toppi deildarinnar undanfarin ár þá er enginn leikur auðveldur fyrir þá heldur."

Keflavík byrjar mótið á að spila heimaleiki sína á Njarðvíkurvelli því Keflavíkurvöllur var tekinn upp í sumar. Willum ætlar að gera þann völl að alvöru heimavígi.
,,Við erum búnir að taka þá ákvörðun að Njarðvíkurvöllur verður okkar heimavígi og við hugsum ekkert um annað fyrr en okkar völlur verður tilbúinn. Það er gott samstarf á milli forráðamanna félaganna og vallarstjóranna og það eru allir einhuga um að gera völlinn sem bestan úr garði sem heimavöll okkar. Ég kvíði því ekkert."

Guðmundur Steinarsson hefur splað sem miðjumaður hjá Keflavík allt undirbúningstímabilið. Við spurðum Willum að lokum út í þá ákvörðun hans.
,,Lið þróast og mótast og hann er ofsalega flnkur fótboltamaður. Hugmyndin með þessu er að hafa hann meira í boltanum. Það er oft þannig með framherja að ef þeir liggja í efstu framlínu eru þeir með miðverðina að anda í hálsmálið á þeim. Það þarf að skapa honum pláss og rými og nýta hans hæfileika. Það er fyrst og fremst pælingin. Fyrir utan að vera flinkur fótboltamaður er leiklesturinn með því besta sem gerist. Hann skapar gríðarlega góðar leikstöður með staðsetningum og tengingum í spili. Ég vil meina að hann eigi að geta nýst okkur betur örlítið aftar á vellinum."

Myndir: Jón Örvar