Knattspyrna | 21. júlí 2004
Yfirburðir Keflavíkur i uppgjöri toppliðana
Í gær lék kvennaliðið og endaði einn af "stórleikjum" riðilsins með öruggum sigri liðs Keflavíkur á liði HK/Víkings á heimavelli Víkings. Þó að sannarlega hafi fyrirstaða HK/Víkings verið meiri en í þeim leikjum sem Keflavík hefur spilað í sumar voru yfirburðir liðsins miklir. Keflavíkurstúlkur stjórnuðu leiknum frá upphafi til enda. Hraði, áræðni og kraftur réðu HK/Víkings stúlkur ekki við og lágu þær í vörn stærstan hluta leiksins. Ekki reynir mikið á markvörslu eða varnarleik liðsins og getur það verið áhyggjuefni, því mótstaða andstæðinganna hefur verið lítil. Keflavíkurliðið gerði út um leikinn á fyrstu 25 mínútum leiksins þar sem Guðný Þórðar fór hamförum og gerði þrjú mörk. Annars var sama hvar á völlinn komið var, alls staðar var styrkur Keflavíkurliðsins meiri. Þessi sigur tryggir væntanlega okkar stelpum þátttöku í úrslitakeppninni sem tekur við af riðlakeppni. Mörk Keflavíkurliðsins gerðu Guðný Þórðardóttir 3, Lilja Íris Gunnarsdóttir 2, Björg Ásta Þórðardóttir og Hrefna Magnea Guðmundsdóttir eitt hver.