Yfirlýsing vegna umræðna um dómaramál
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um samskipti félaga í efstu deild og dómara, m.a. í kjölfar yfirýsingar KSÍ þar sem félögin voru hvött til að sýna störfum dómara virðingu. Á dögunum birtist á vefsíðunni fótbolti.net „ákall til dómara“ sem sagt var vera yfirlýsing liða í efstu deild karla. Knattspyrnudeild Keflavíkur vill taka fram að þetta plagg var lagt fyrir á fundi formanna félaga í efstu deild til kynningar. Það var ekki rætt nánar á fundinum og aldrei kom til tals að félögin sendu það frá sér sem einhvers konar yfirlýsingu um störf dómara. Því miður hefur viðkomandi skjal verið kynnt opinberlega sem yfirlýsing félaganna og í framhaldinu hefur umræðan eðlilega miðast við það. Knattspyrnudeild Keflavíkur harmar það og vill taka fram að þetta óformlega vinnuplagg endurspeglar að sjálfsögðu ekki viðhorf félagsins til dómara og starfa þeirra.