Fréttir

Knattspyrna | 27. september 2004

Yngri flokkar kvenna 2003-2004 - Yfirlit

Í sumar tefldi Keflavík fram meistaraflokki kvenna í fyrsta skipti í þó nokkur ár.  Árangurinn varð glæsilegur og liðið tryggði sér sæti í úrvalsdeild kvenna að ári.  Auk þess varð 2. flokkur Íslandsmeistari í 7 manna liðum.  En starfið í yngri flokkunum hefur einnig verið öflugt og hefur markviss uppbygging átt sér stað undanfarin ár undir öruggri stjórn Elis Kristjánssonar, yfirþjálfara yngri flokka kvenna.  Hér að neðan er yfirlit sem Elis tók saman yfir starfsemi yngri flokka kvenna á nýliðnu keppnistímabili.


Stúlkur úr 5. flokki á Gullmóti Breiðabliks: Aldís, Kara, Heiða, Ríkey og Jenný.

5. flokkur:
Stelpurnar tóku þátt í níu mótum þetta tímabil og sýndu miklar framfarir eftir því sem leið á sumarið.  Keflavík var með tvö lið, A- og B-lið í 5. flokki.  Byrjað var á jólamóti Breiðabliks þar sem A-liðið lenti í öðru sæti og B-liðið í því ellefta.  Hápunktur sumarsins var þó Gullmót Breiðabliks þar sem liðin lentu í þrettánda og nítjánda sæti og Pæjumótið á Siglufirði, þar varð A-liðið í tólfta sæti og B-liðið í því fjórða.  Á Hnátumóti KSÍ lentu bæði lið í öðru sæti í sínum riðli, í Faxaflóamótinu lentu liðin í þriðja og fjórða sæti í sínum riðli og í Suðurnesjamótinu lenti A-liðið í öðru sæti og B-liðið varð Suðurnesjameistari.

4. flokkur:
Flokkurinn tók þátt í ellefu mótum og byrjuðu þær einnig á jólamóti Breiðabliks þar sem A-liðið lenti í öðru sæti og B-liðið í því sjötta.  Bæði lið sigruðu Bónusmótið sem fram fór í Reykjaneshöll, þá urðu bæði lið í þriðja sæti á Húsasmiðjumóti Víkings.  Í Faxaflóamótinu varð fjórða sæti hlutskipti beggja liða og annað sæti í sínum riðli á Íslandsmóti innanhúss þar sem markatala kostaði okkur sæti í úrslitakeppni.  Á Gullmóti Breiðabliks urðu stelpurnar í fjórða og sjöunda sæti, á Pæjumótinu á Siglufirði varð A-liðið í fjórða sæti eftir að hafa tapað á hlutkesti um þriðja sætið en B-liðið lenti í öðru sæti.  Bæði lið sigruðu HK-mótið, á ReyCup lenti A-liðið í þriðja sæti og B-liðið í því fyrsta.  Þá urðu bæði liðin Suðurnesjameistarar og luku Íslandsmótinu í fimmta og sjöunda sæti.

3. flokkur:
Fyrir utan sjálft Íslandsmótið var ferð flokksins á alþjóðlegt knattspyrnumót í Liverpool toppurinn á sumrinu.  Voru stelpurnar sér og félaginu til mikils sóma í þessari ferð, bæði innan sem utan vallar, og var um það talað á meðal annarra liða og framkvæmdarstjórn mótsins.  Stelpurnar náðu glæsilegum árangri þar ytra með því að lenda í þriðja sæti og voru reyndar hársbreidd frá því að spila sjálfan úrslitaleikinn.  Þær unnu sinn riðil í Íslandsmótinu með yfirburðum, fengu 27 stig af 30 mögulegum og markatöluna 69-10.  Í úrslitakeppninni gekk ekki sem best en liðið lenti þó í fimmta til sjötta sæti og spilar í A-riðli næsta sumar en það var takmarkið þegar lagt var af stað í sumar.  Í öðrum mótum var spilað í 7 manna liðum.  Í Jólamóti Breiðabliks lentu liðin í þriðja og fimmta sæti, á Húsasmiðjumóti Víkings urðu bæði í þriðja sæti, annað sætið varð niðurstaðan á Faxaflóamótinu, þriðja og fimmta sæti á HK-mótinu og að lokum fimmta sæti í Íslandsmótinu innannhúss.

Það er víst ekki annað hægt að segja en að yngri flokkar kvenna hafi gert það gott á þessu tímabili og getum við verið stolt af árangri þeirra og horft björtum augum til komandi ára í kvennaboltanum.