Fréttir

Zoran bestur hjá 433.is
Knattspyrna | 20. júlí 2012

Zoran bestur hjá 433.is

Nú er fyrri umferð Pepsi-deildarinnar lokið og þá er komið að alls konar uppgjörum, yfirlitum og verðlaunaveritingum fyrir fyrstu 11. umferðirnar.  Keflavíkurliðið hefur svo sem ekki verið áberandi í þessum uppgjörum enda hefur liðið ekki verið í toppbaráttunni þó flestir geti verið sammála um að liðið hafi staðið sig vel og staða þess sé mun betri en almennt var spáð.

Vefsíðan 433.is hefur tekið saman stutt yfirlit með lofi og lasti eftir fyrri umferð deildarinnar.  Það er gaman að segja frá því að Zoran Daníel Ljubicic er þar valinn besti þjálfarinn og er vel að því kominn.  Það er gert með þessum orðum:
Besti þjálfari fyrri umferðar: Zoran Daníel Ljubicic (Keflavík)
Zoran hefur náð að gera góða hluti með Keflavík þrátt fyrir fremur þunnan leikmannahóp. Er á sínu fyrsta ári sem þjálfari í efstu deild karla og virðist vera með þetta. Keflavík er með 15 stig eftir fyrri umferðina en margir spáðu liðinu falli. Þurfa 2-3 sigri í seinni umferð til tryggja sæti sitt í deildinni og það ætti að vera lítið mál fyrir Zoran og félaga.

Zoran er reyndar ekki eini Keflvíkingurinn sem kemur við sögu hjá 433.is því mark Guðmundar Steinarssonar gegn Fram var valið besta markið í fyrstu 11. umferðum Pepsi-deildarinnar og kemur víst fáum á óvart.  Því er lýst þannig:
Mark fyrri umferðarinnar: Guðmundur Steinarsson (Keflavík)
Guðmundur skoraði án nokkurs vafa mark fyrri umferðarinnar, markið kom á móti Fram í 8. umferð en það var á miðjum vellinum. Guðmundur sá að Ögmundur Kristinsson stóð framarlega og hann nelgdi boltanum yfir Ögmund. Glæsilegt mark hjá Guðmundi sem hefur verið góður í sumar.

Reyndar eigi fleiri uppgjör eftir að líta dagsins ljós og viðurkenningar KSÍ verða afhentar föstudaginn 27. júlí.