„Lávarðadeild“ af stað 11. apríl
Nokkrir fyrrum leikmenn og stjórnarmenn í Keflavík hafa í hyggju að stofna félagsskap til að endurnýja gömul kynni og vera í leiðinni stuðningur við knattspyrnulið Keflavíkur. Þessa dagana er verið að senda út boðsbréf á stofnfundinn en ekki hefur tekist að hafa upp á heimilisföngum allra þannig að fundarboðið birtist hér. Þeir sem ekki komast á fundinn en hafa áhuga á að taka þátt eru hvattir til að hafa samband við Gísla Eyjólfsson í undirbúningsnefndinni.
Formlegur stofnfundur „Lávarðadeildar“, þ.e. deildar með fyrrum leikmönnum og stjórnarmönnum í knattspyrnuráði Keflavíkur (ÍBK) verður haldinn mánudaginn 11. apríl n.k. í K–húsinu við Hringbraut í Keflavík kl. 20:00
Hugmyndin er ekki sú að vera með fjáraflanir og einhverjar kvaðir á nefndarmönnum. Heldur að vera stuðningur við íþróttina, hittast fyrir leiki, spjalla yfir kaffibolla, rifja upp gömul kynni og skemmtilegar stundir.
Nafnið „Lávarðadeild“ er ekki endilega það sem koma skal en allar uppástungur um nafn verða vel þegnar á fundinum.
Tilgangurinn með þessu bréfi er að kalla saman fyrrverandi leikmenn og stjórnarmenn deildarinnar, efla og styrkja tengslin við félagið / deildina og sín á milli.
Hvernig getum við verið áfram þátttakendur í starfi knattspyrnudeildarinnar þó við séum ekki lengur iðkendur eða stjórnarmenn?
Hvernig getum við náð betur til bæjarbúa og náð upp stemmningu fyrir sumarið og almennt í kringum knattspyrnuna. Hvernig er starfið í dag / í sumar?
Við þurfum að stuðla að eflingu deildarinnar og knattspyrnunnar með jákvæðri umræðu, þess vegna ætlum við að hittast og ræða málin.
Við hlökkum til að sjá þig mánudagskvöldið 11. apríl n.k.
Með kveðju
f.h. undirbúningsnefndar
Gísli Eyjólfsson
E.s. Ef þú sérð þér ekki fært á að mæta á ofangreindum tíma en vilt starfa með okkur vinsamlega hafðu samband í síma: 892 3888 eða á netfangið gislime@centrum.is
Árið 1973 var einn af hápunktum knattspyrnusögu Keflavíkur
en liðið vann þá Íslandsmeistaratitilinn með glæsibrag.
Hér má sjá myndir úr Morgunblaðinu frá því ári.
Á efri myndinni hampar Guðni Kjartansson bikarnum en á þeim
neðri má sjá sigurmark Ólafs Júlíussonar gegn Akureyri.
Og vel fagnað í brekkunni fyrir aftan!